Fyrri umræða um þingsályktun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandsins til baka, stendur yfir á Alþingi og er talsverður fjöldi þingmanna á mælendaskrá. Óvíst er hversu lengi þingfundur kann að standa í dag en í gær var fundað til klukkan 20.00.
Þingfundur hófst í dag klukkan 13.30 og umræðan um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um hálftíma síðar. Umræðan hefur staðið yfir síðan ef undan er skilið hlé sem var gert á þingfundi á milli klukkan 15.00 og 16.00. Fjöldi annarra mála er á dagskrá þingsins í dag og ólíklegt að nokkur þeirra komi til umræðu. Þar á meðal tvær þingsályktanir frá stjórnarandstöðuflokkunum um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu. Samkomulag er um að þær fari umræðulaust til utanríkismálanefndar Alþingis ásamt tillögu utanríkisráðherra.
Umræður á Alþingi í dag hafa að mestu verið á efnislegum forsendum þar sem þingmenn hafa meðal annars tekist á um það hvort ástæða sé til þess að halda umsóknarferlinu áfram, um framtíðarþróun Evrópusambandsins og peningamál. Til þessa hefur umræðan um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra fremur snúist um málsmeðferðina en efnislega um tillöguna.