Rafbíllinn hlaðinn í IKEA

Í dag var fyrsta hraðhleðslustöðin fyrir rafbíla tekin í notkun hér á landi við höfuðstöðvar Orkuveitunnar við Bæjarháls, önnur stöð er við BL á Sævarhöfða en áætlað er að 8 stöðvar til viðbótar muni bætast við á næstu mánuðum á Suður- og Vesturlandi og verði tilbúnar í sumar.

Á uþ.b. 30 mínútum verður hægt að hlaða rafbíl á stöðvunum sem verða m.a. staðsettar við IKEA, Smáralind, Kringluna, Orkuveituna, í miðbænum, Borgarnesi, Reykjanesbæ og á Selfossi og Laugarvatni. Til að byrja með verður hægt að hlaða bílana endurgjaldslaust en verkefnið er samstarfsverkefni Orku Náttúrunnar, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, og B&L.

Einungis eru tæplega 100 rafbílar í notkun á landinu en með því að bæta þjónustu við flotann er stefnt að því að stækka hann í nánustu framtíð. En stöðvarnar eru staðsettar með það í huga að auka vegalengdir sem eigendur rafbíla komast, að þær liggi vel við dreifikerfi rafmagns og að bíleigandinn hafi eitthvað við að vera þann hálftíma sem tekur að hlaða.

Stöðvarnar verða því vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og í allt að 80 kílómetra fjarlægð frá miðborginni í allar áttir.

Það var Kristbjörg Magnúsdóttir heimafæðingaljósmóðir sem reið á vaðið og hlóð bíl af stöðinni í fyrsta skipti í dag en hún hefur keyrt rafbíl frá því í ágúst. Á degi hverjum ferðast hún á bilinu 80-100 km og hún segir stöðvarnar eiga eftir að skipta sköpum fyrir sig þar sem Nissan Leaf bíll hennar getur keyrt svipaða vegalengd á einni hleðslu.

10 stöðvar verða tilbúnar í sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert