Rafbíllinn hlaðinn í IKEA

00:00
00:00

Í dag var fyrsta hraðhleðslu­stöðin fyr­ir raf­bíla tek­in í notk­un hér á landi við höfuðstöðvar Orku­veit­unn­ar við Bæj­ar­háls, önn­ur stöð er við BL á Sæv­ar­höfða en áætlað er að 8 stöðvar til viðbót­ar muni bæt­ast við á næstu mánuðum á Suður- og Vest­ur­landi og verði til­bún­ar í sum­ar.

Á uþ.b. 30 mín­út­um verður hægt að hlaða raf­bíl á stöðvun­um sem verða m.a. staðsett­ar við IKEA, Smáralind, Kringl­una, Orku­veit­una, í miðbæn­um, Borg­ar­nesi, Reykja­nes­bæ og á Sel­fossi og Laug­ar­vatni. Til að byrja með verður hægt að hlaða bíl­ana end­ur­gjalds­laust en verk­efnið er sam­starfs­verk­efni Orku Nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæk­is Orku­veitu Reykja­vík­ur, og B&L.

Ein­ung­is eru tæp­lega 100 raf­bíl­ar í notk­un á land­inu en með því að bæta þjón­ustu við flot­ann er stefnt að því að stækka hann í nán­ustu framtíð. En stöðvarn­ar eru staðsett­ar með það í huga að auka vega­lengd­ir sem eig­end­ur raf­bíla kom­ast, að þær liggi vel við dreifi­kerfi raf­magns og að bí­leig­and­inn hafi eitt­hvað við að vera þann hálf­tíma sem tek­ur að hlaða.

Stöðvarn­ar verða því vítt og breitt um höfuðborg­ar­svæðið og í allt að 80 kíló­metra fjar­lægð frá miðborg­inni í all­ar átt­ir.

Það var Krist­björg Magnús­dótt­ir heima­fæðinga­ljós­móðir sem reið á vaðið og hlóð bíl af stöðinni í fyrsta skipti í dag en hún hef­ur keyrt raf­bíl frá því í ág­úst. Á degi hverj­um ferðast hún á bil­inu 80-100 km og hún seg­ir stöðvarn­ar eiga eft­ir að skipta sköp­um fyr­ir sig þar sem Nis­s­an Leaf bíll henn­ar get­ur keyrt svipaða vega­lengd á einni hleðslu.

10 stöðvar verða til­bún­ar í sum­ar.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert