Ríkisstjórn Íslands kynnti í dag Evrópustefnu sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og annarra gildandi samninga Íslands og Evrópusambandsins. Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES-samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi. „Áhersla verður á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við ESB og aðildarríki. Í stefnunni áréttar ríkisstjórnin mikilvægi þess að Ísland komi fyrr að mótun löggjafar á vettvangi ESB,“ segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Á meðal þess sem stefnt er að er:
- Unnið verði mat á hagsmunum Íslands af EES-samningnum, sem liggi fyrir haustið 2014, í tilefni 20 ára afmælis samningsins.
- Settur verður á fót samráðshópur m.a. með fulltrúum atvinnulífsins og utanríkisráðuneytis til þess að greina tækifæri innan Evrópu með hliðsjón af núgildandi viðskiptasamningum.
- Samstarf við Noreg og Liechtenstein á vettvangi EES-samningsins verði eflt.
- Áhersla lögð á áframhaldandi öflugt norrænt og vestnorrænt samstarf til að efla enn frekar hagsmunagæslu á Evrópuvettvangi.
- Styrkt tvíhliða samstarf við önnur Evrópuríki, svo sem á sviði öryggismála, viðskiptamála og vísinda og menningarmála
Þá fylgir Evrópustefnunni sérstök aðgerðaáætlun um EES-samninginn.
Á meðal aðgerða sem gripið verður til má nefna:
- Framkvæmd EES-samningsins verður reglulega á dagskrá funda ríkisstjórnar.
- Komið verður á fót stýrihópi um framkvæmd EES-samningsins undir forsæti forsætisráðuneytis með þátttöku skrifstofu Alþingis.
- Komið verður á fót samstarfshópi um EES-mál milli stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði með áherslu á hagsmunagreiningu EES-reglna.
- Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sæki alla þá óformlegu ráðherrafundi ESB sem þeim er boðið til með það að sérstöku markmiði að fjalla um þau sérstöku hagsmunamál Íslands sem greind hafa verið á frumstigum löggjafarvinnu ESB.
- Komið verður á reglubundnum fundum EES-ráðherra Íslands, Noregs og Liechtenstein í tengslum við EES-ráðsfundi.
Sjá Evrópustefnuna í heild hér.