Telur enga þörf á að flýta sér

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

„Við erum ekki að rjúfa samvinnu við Evrópusambandið, alls ekki,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um þingsályktunartillögu hans um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka. Einungis væri verið að segja að ekki væri vilji til þess að ganga í sambandið. Stefna ríkisstjórnarinnar væri einmitt að efla samstarfið við Evrópusambandið og einstök ríki þess.

Ráðherrann brást þar við spurningum frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, sem meðal annars innti hann svara um aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum málum. Gunnar sagðist telja almenna samstöðu um að þau mál þyrfti að skoða. Hins vegar yrði einnig að ræða um stöðu Alþingis í þeim efnum. Hvenær rétt væri að mál væru afgreidd af þinginu og hvenær væri eðlilegt að þjóðin kæmi að málum.

Gunnar Bragi benti á í því sambandi að Alþingi og þingræðið hefðu ákveðnu hlutverk að gegna og vanda þyrfti ákvarðanir um að setja það til hliðar. Sagðist hann ennfremur efast um að rétt væri að halda þjóðaratkvæði um það hvort halda ætti áfram með umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Hins vegar þætti honum tillaga Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs áhugaverð eins og hann hefði áður sagt. Tillagan gengur út á að hlé verði áfram á umsóknarferlinu og þjóðaratkvæði um málið fari fram á síðari hluta kjörtímabilsins.

„En mér finnst eðlilegt að þingið komi að þessu. Mér finnst eðlilegt að þingið fái að ræða málið. Mér finnst mjög sérstakt við fyrstu umræðu, þegar umræðan er varla farin af stað, að þá séu menn farnir að tala um einhverja samninga um það hvernig eigi að ljúka málinu. Það kann vel að vera að á einhverjum öðrum tímapunkti sé rétt að ræða slíkt. Sá tími er náttúrlega ekki kominn því þingið á eftir að fjalla um málið,“ sagði ráðherrann ennfremur.

Sagðist hann vilja sjá þingsályktunartillöguna fara til utanríkismálanefndar ásamt tillögu VG og annarri tillögu frá stjórnarandstöðunni um þjóðaratkvæði um málið samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor. Nefndin gæfi sér síðan góðan tíma til þess að fara yfir málið og fá umsagnir um tillögurnar. „Ég mun fyrir mitt leyti ekki þrýsta neitt á að þar flýti menn sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert