Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest lögbann sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði lagði í desember 2012 við innflutningi á eftirlíkingum af Arco-gólflampanum og innflutningsfyrirtæki bannað að selja eftirlíkingarnar hér á landi.
Féllust dómarar á kröfu Flos Scandinavia í málinu en hingað til lands voru fluttar 30 eftirlíkingar af Arco-lampanum eftir hönnuðina Achille og Pier Giacomo Castiglioni. Þá var innflutningsfyrirtækinu jafnframt gert að afhenda Flos eftirlíkingarnar til eyðingar og greiða bætur vegna kostnaðar við eyðinguna.
Innflytjandanum er gert að greiða Flos tæpar 45 þúsund krónur í skaðabætur og til að greiða 1.325 þúsund krónur í málskostnað.
Tollstjórinn í Reykjavík tilkynnti Flos í nóvember 2011 að mögulegar eftirlíkingar af Arco-lampanum væru í sendingu frá Hong Kong. Í kjölfarið var tollafgreiðsla á sendingunni stöðvuð.
Flos kærði innflutninginn til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu síðar í sama mánuði og lögregla lagði í kjölfarið hald á fyrrgreinda gólflampa, teknar voru skýrslur af fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins og aflað matsgerðar er staðfesti að vörur þær er óskað hafði verið innflutnings á væru eftirlíkingar af Arco-lampanum. Lögreglan tók síðar ákvörðun um að fella niður rannsókn málsins og ríkissaksóknari staðfesti síðan í desember 2012 ákvörðun lögreglu.
Það var síðan ári síðar sem Flos lagði fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, sem hafði hinn 20. desember 2012 lagt lögbann við innflutningnum. Sem dómarar hafa nú staðfest enda ótvírætt að Arco-lampinn njóti verndar að höfundarrétti sem nytjalist samkvæmt 1. greinar höfundarlaga.
Það var síðan niðurstaða matsmanns að um mjög augljósa eftirlíkingu á Arco-lampanum væri að ræða þar sem efnisval og önnur sérkenni væru það lík að augljóst væri að frumhönnun hönnuðanna Achilles og Piers Giacomos Castiglionis væri fyrirmynd kínverska lampans.
Einungis til einkanota
Innflytjandinn hélt því fram fyrrgreindir lampar hefðu eingöngu verið ætlaðir til einkanota og aldrei hefði staðið til af hálfu hans að hafa lampana til notkunar í starfsemi sinni eða bjóða þá til sölu, selja, gefa, flytja þá úr landi eða ráðstafa þeim með öðrum hætti.
Eins og fram hefur komið flutti innflytjandinn inn þrjátíu eintök af áðurgreindum lampa frá Kína til landsins, en tollafgreiðsla sendingarinnar var stöðvuð af tollyfirvöldum með heimild í tollalögum. Forsvarsmaður innflutningsfyrirtækisins hélt því fram fyrir dómi að áður en lamparnir voru pantaðir hefðu tuttugu konur, sem allar væru vinkonur og kunningjar viðkomandi, lýst yfir áhuga á að kaupa umrædda lampa ef ráðist yrði í pöntun á þeim í gegnum tiltekna heimasíðu á netinu. Lamparnir hefðu því eingöngu verið ætlaðir til einkanota. Ástæða þess að vörukaupin hefðu verið gerð í nafni innflutningsfyrirtækisins væri sú að það hefði á sama tíma verið að kaupa aðrar vörur að utan.
Segir í dómi héraðsdóms að ekki hafi verið upplýst hverjar þessar tuttugu konur séu né hafi þær verið leiddar fyrir dóminn sem vitni. Því verði að telja að lamparnir hafi verið fluttir inn til landsins í söluskyni.