Evrópumálin rædd áfram í þinginu

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Fyrri umræða um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra þess efnis að umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið verði dregin til baka er nú hafin á Alþingi en málið var rætt bæði í gær og í fyrradag. Þingfundur hófst klukkan 15:00 í dag og umræðan um tillöguna var fyrsta mál á dagskrá eftir umræður um störf þingsins.

Fjöldi mála er sem fyrr á dagskrá þingsins líkt og undanfarna daga en þau mál hafa hins vegar ekki verið tekin fyrir enn vegna umræðunnar um þingsályktunartillöguna. Gera má ráð fyrir að umræða um tillöguna standi fram á kvöld þar sem flestar ræður verða fluttar af stjórnarandstæðingum líkt og undanfarna tvo daga. Sextán þingmenn eru nú á mælendaskrá og þar af fjórtán stjórnarandstæðingar.

Stjórnarandstæðingar hafa sakað ríkisstjórnina um að vilja keyra málið í gegnum þingið. Utanríkisráðherra sagði hins vegar á Alþingi í gær að hann vildi gjarnan að þingsályktunartillagan kæmist til utanríkismálanefndar þingsins ásamt tveimur tillögum stjórnarandstöðunnar um þjóðaratkvæði um framhald umsóknarferlisins þar sem þær fengju ítarlega umfjöllun. Engin ástæða væri til þess að flýta sér í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert