Fimmti hver yfir fertugu með lungnateppu

Sjúkdómsbyrðin vegna langvinnra öndunarfærasjúkdóma er álíka mikil og samanlögð sjúkdómsbyrði vegna krabbameins í brjósti, blöðruhálskirtli, eistum, leghálsi, eggjastokkum og ristli. Lungnateppa stendur fyrir bróðurpartinum af langvinnum öndunarfærasjúkdómum og talið er að 16.000 til 18.000 Íslendingar 40 ára og eldri hafi langvinna lungnateppu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjasta SÍBS-blaðinu sem kom út fyrir skemmstu.

Öndunarfærasjúkdómar eru sjúkdómar sem fara hljótt en valda miklum skaða. Tíðni langvinnra lungnateppusjúkdóma hefur til að mynda vaxið ört á undanförnum árum og er fjórða algengasta dánarorsök Íslendinga nú á tímum. Einn af hverjum fimm Íslendingum yfir 40 ára aldri þjáist af einkennum langvinnrar lungnateppu og einn af hverjum tíu hefur talsverð eða alvarleg einkenni.

Sé mælikvarða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) brugðið á langvinna öndunarfærasjúkdóma aðra en lungnakrabbamein kemur í ljós að þeir standa fyrir um 5% af heilsufarsskaða Íslendinga, hvort heldur sem mælt er í ótímabærum dauða, árum lifað með örorku, eða hinum samsetta kvarða „glötuð góð æviár“. 

Fjöldi lækna og sérfræðinga skrifar í blaðið og meðal annars er fjallað um þá endurhæfingu sem lungnateymi Reykjalundar býður upp á. Þar er einnig að finna viðtal við Trausta Valdimarsson meltingarlækni og hvernig hann sigraðist á reykingafíkn og hóf að stunda hlaup af miklum móð. Einnig er grein um bakteríur og veirur sem geta valdið sýkingum í öndunarvegi auk þess sem fjallað er um astma og ofnæmi af ýmsum völdum og áhrif þess á börn.

Blaðið má skoða í heild sinni á vef SÍBS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka