Heimilt að innheimta gjald við Geysi

mbl.is/Kristinn

Sýslumaðurinn á Selfossi hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landeigendafélag Geysis megi innheimta gjald á svæðinu. Þetta staðfestir sýslumaður í samtali við mbl.is.

Landeigendafélag Geysis sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem því er fagnað að kröfu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lögbann á gjaldtöku við Geysisvæðið hafi verið hafnað. Gjaldtaka af ferðamönnum muni því hefjast innan fárra daga.

Gjaldtaka af ferðafólki sem fer að Geysi átti að hefjast sl. mánudag. Landeigendafélagið ákvað hins vegar að fresta gjaldtökunni vegna lögbannskröfu fjármálaráðherra.

Landeigendafélagið hefur undirbúið gjaldtökuna síðustu mánuði og um leið þjónustu á svæðinu. Þannig hafa níu starfsmenn verið ráðnir og tóku þeir til starfa 1. mars. Tæknimálin hafa verið undirbúin og bæklingar prentaðir. 

Ríkið á hluta Geysissvæðisins en ágreiningur hefur verið um afmörkun hans. Gjaldtakan var ákveðin í andstöðu við ríkið og gekk lögbannskrafa fjármálaráðuneytisins út á að bann yrði sett við því að landeigendafélagið innheimti gjald af ferðafólki sem heimsækti Geysissvæðið.

Yfirlýsing Landeigendafélagsins er svohljóðandi:

„Landeigendafélag Geysis fagnar því að kröfu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um lögbann á gjaldtöku við Geysisvæðið hafi verið hafnað. Gjaldtaka af ferðamönnum mun því hefjast innan fárra daga.

Með úrskurði sínum virðir sýslumaðurinn í Árnessýslu eignarrétt landeigenda og undirstrikar réttmætar kröfur Landeigendafélagsins varðandi gjaldtöku af ferðamönnum sem heimsækja svæðið.
 
Ríkið þáði ekki boð um aðild að Landeigendafélaginu við stofnun þess, þrátt fyrir það vera einn af eigendum svæðisins. Engu að síður lagði Landeigendafélagið áherslu á að upplýsa ríkið, meðeigenda sinn að svæðinu, um fyrirætlanir sínar. Það réði miklu varðandi úrskurð sýslumanns en í niðurlagi úrskurðar hans segir: 
 
Að teknu tilliti til alls sem að framan er rakið er það niðurstaða og ákvörðun sýslumanns að fallast ekki á beiðni gerðarbeiðanda ríkissjóðs um að lagt verði lögbann við því að forsvarsmaður Landeigendafélags Geysis ehf. innheimti gjald af ferðamönnum inn á Geysissvæðið, þ.e. inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð.
 
Eigendur Geysissvæðisins hafa í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu.  Vinna við öryggisáætlun svæðisins og forgangsröðun verkefna er þegar hafin. Nýkynnt verðlaunatillaga um uppbyggingu á Geysissvæðinu undirstikar nauðsyn þess að vernda svæðið, forða því frá skemmdum og auka upplifun ferðamanna. Geysissvæðið ber að vernda og gjaldtaka er forsenda þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka