„Við heyrðum rosalegan hvell undir okkur, eins og fallbyssuskot inni í fjallinu, litum hvor á annan og sáum svo hvernig jörðin byrjaði að gliðna undir okkur,“ segir Gísli Kristján Gunnsteinsson, sem þakkar fyrir að hafa sloppið heill á húfi úr stuttri fjallgöngu rétt við borgarmörkin um helgina.
„Þetta er eins og í bíómyndunum, manni finnst eins og hver sekúnda sé mínúta, en eflaust hafa ekki nema nokkur sekúndubrot verið liðin áður en við uppgötvuðum að við vorum lentir í miðju snjóflóði.“
Gísli segir þetta áminningu um að ekki megi vanmeta fjöll þó þau séu við borgarmörkin. Gísli var á niðurleið af Vífilsfelli ásamt félaga sínum og hundi þegar fjallshlíðin fór af stað undir fótum þeirra. Hann áætlar að flóðið hafi verið milli 300 og 500 metra langt, en þeir bárust sjálfir um 40-50 metra niður hlíðina áður en flóðið stöðvaðist.
„Við sluppum sem betur fer ágætlega frá þessu og erum tiltölulega heilir en félagi minn tognaði illa á annarri löppinni,“ segir Gísli.
„Þetta var ekki púðursnjór heldur flekaflóð þar sem snjórinn helst saman og hnullungarnir voru á stærð við kommóður og upp í heilu bílana. Þú pompar þarna á milli og getur ekkert klifrað upp úr þessu, þetta var það stórt. Þannig að þetta var bara guð og lukkan.“
Sjálfur náði Gísli að sögn að halda sér ofan á krapinu en félagi hans, sem var aðeins neðar dróst ofan í flóðið. „Hann sagði mér eftir á að hann hefði bara alveg frosið, þrátt fyrir að vita réttu „handtökin“. Maður hefur heyrt að maður eigi að reyna að synda í þessu og ég reyndi það eins og ég gat, en ég hafði enga stjórn. Maður reynir, en ræður ekki neitt við neitt.“
Gísli og félagi hans eru báðir vanir útivistarmenn og hafa gengið á flest helstu fjöll Íslands. Þeir voru búnir ísöxum og broddum vegna færðarinnar en Gísli segir að eftir á að hyggja hefðu þeir átt að vita betur. Hann segir þessa lífsreynslu hafa verið ágætis áminningu sem fari í reynslubankann, og þakkar fyrir að ekki fór verr.
„Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Við hefðum alveg getað sagt okkur sjálfir að það væri snjóflóðahætta, þarna var harðfenni undir nýföllnum snjó og blautt í snjónum. Manni hættir til að hugsa aðeins öðru vísi af því að þetta er svo nálægt Reykjavík. En þetta er alvörufjall, alveg sama hvort það er við hliðina á borginni eða úti á landi,“ segir Gísli.
„Héðan í frá munum við passa upp á að vera með snjóflóðaýlur og skóflu með í svona, það er ekki nóg að vera bara með brodda og exi. Þetta er ekkert grín.“