Í kvöld má búast við vestan 8-15 m/s, snjókomu og takmörkuðu skyggni vestantil á
landinu, þar með talið á fjallvegum á suðvestan- og vestanverðu landinu. Í nótt verður
éljagangur á svæðinu. Um miðnætti hvessir austantil og þar er búist við vestan 15-23
m/s og hríðarveðri, einkum á fjallvegum í nótt, en dregur úr vindi og úrkomu í
fyrramálið, segir í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.
Vegir eru að mestu greiðfærir á Suðvestur- og Suðurlandi.
Hálkublettir eru mjög víða á Vesturlandi sem og á Holtavörðuheiði.
Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á fjallvegum og sumstaðar þoka. Hálkublettir eru víða á láglendi.
Á Norðvesturlandi eru hálkublettir á fjallvegum en annars autt að mestu. Norðaustantil er víða hálka og sumstaðar snjóþekja.
Hálka eða hálkublettir eru á Mývatns- og Möðrudalsöræfum en snjóþekja á Vopnafjarðarheiði.
Hálkublettir eru á flestum fjallvegum á Austurlandi, annars eru vegir greiðfærir á Fljótsdalshéraði og áfram með suðausturströndinni.