Lögbannskröfu ríkisins er harðlega mótmælt í greinargerð lögfræðings landeigendafélags Geysis. Krefja landeigendur ríkið um að setja fram tryggingu vegna kröfunnar. Landeigendur segja að Geysissvæðið þoli á engan hátt alla þá umferð ferðamanna sem skipulagslaust fer um svæðið.
Er þar vísað til gagna frá Umhverfisstofnun sem hefur sett Geysissvæðið á rauðan lista yfir þau svæði sem eru í hættu.
„Upplýsingar Umhverfisstofnunar um fjölda ferðamanna kunna að vera nokkuð gamlar en nú er gert ráð fyrir að um 600.000 ferðamenn heimsæki Geysissvæðið á þessu ári,“ segir í greinargerð sem Hjörleifur Kvaran, lögfræðingur landeigenda, hefur sent til sýslumannsins í Árnessýslu vegna lögmannskröfu ríkisins.
Gjaldtaka af ferðafólki sem fer að Geysi átti að hefjast hinn 10. mars en henni var frestað vegna lögbannskröfu fjármálaráðherra.
Landeigendafélagið hefur undirbúið gjaldtökuna síðustu mánuði og um leið þjónustu á svæðinu. Þannig hafa níu starfsmenn verið ráðnir og tóku þeir til starfa 1. mars. Tæknimálin hafa verið undirbúin og bæklingar prentaðir.
Ríkið á hluta Geysissvæðisins en ágreiningur hefur verið um afmörkun hans. Gjaldtakan var ákveðin í andstöðu við ríkið og gengur lögbannskrafa fjármálaráðuneytisins út á að bann verði sett við því að landeigendafélagið innheimti gjald af ferðafólki sem heimsækir Geysissvæðið.
„Verði sýslumaður við beiðni gerðarbeiðanda og ákveði að setja lögbann á fyrirhugaða gjaldtöku gerðarþola krefst gerðarþoli að gerðarbeiðanda verði gert að setja fram tryggingu fyrir annars vegar þeim kostnaði sem gerðarþoli hefur þegar undirgengist með skuldbindingum og eins þeim hagnaðarmissi sem hann verður fyrir með setningu lögbannsins. Áskilinn er réttur til að setja þessar kröfur fram með skýrari hætti á seinni stigum málsins, ef þörf krefur,“ segir enn fremur í greinargerð landeigenda.