Costco hefur áhuga á verslun á Íslandi

Tekjur smásölurisans Costco eru 105 milljarðar dala á ári.
Tekjur smásölurisans Costco eru 105 milljarðar dala á ári.

Ein af stærstu smásölukeðjum heims er nú með það til skoðunar að opna verslun í Reykjavík. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa fulltrúar á vegum fyrirtækisins Costco, sem er næststærsta smásölufyrirtæki Bandaríkjanna, að undanförnu átt fundi af þessu tilefni með ýmsum aðilum í stjórnkerfinu, meðal annars Seðlabanka Íslands.

„Ég get staðfest að við funduðum með þeim hér í ráðuneytinu og erum að fara yfir þau atriði sem að okkur snúa. Við lítum jákvæðum augum á þetta mál,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála er ljóst að verulegur áhugi er af hálfu fyrirtækisins að koma til Íslands. Fjármagnshöftin valda forsvarsmönnum Costco ekki sérstökum áhyggjum enda eru nýfjárfestingar í erlendum gjaldeyri undanþegnar lögum um gjaldeyrismál sem þýðir að félagið getur flutt hagnað af rekstri félagsins úr landi.

Yrði af innreið Costco á íslenskan markað gæti það haft umtalsverð áhrif á samkeppnisumhverfi í verslunarrekstri hérlendis. Costco leggur einkum á áherslu á að selja margvíslegar vörur í stórum magnpakkningum á lágu verði. Á meðal þess sem er selt í verslunum Costco eru matvörur, raftæki, húsgögn og fatnaður.

Tekjur nema sjöfaldri landsframleiðslu

Costco starfrækir yfir 630 verslanir í tíu löndum – langsamlega flestar í Bandaríkjunum – en á undanförnum árum hefur fyrirtækið sérstaklega aukið umsvif sín utan Bandaríkjanna. Fram til þessa hefur Costco hins vegar aðeins opnað verslanir í tveimur öðrum Evrópuríkjum – Bretlandi og Spáni.

Costco er skráð í kauphöllina Nasdaq í Bandaríkjunum. Afkoma félagsins hefur verið góð á umliðnum árum og frá því í ársbyrjun 2009 hefur gengi hlutabréfa þess hækkað um tæplega 180%. Hagnaður Costco á síðasta ári nam um 2 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 230 milljarða íslenskra króna, og heildartekjur fyrirtækisins voru ríflega 105 milljarðar dala. Það jafngildir um sjöfaldri landsframleiðslu Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert