Forkastanleg framkoma gegn Íslandi

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson og Árni Páll Árnason tókust á um hina óvæntu stöðu í makríldeilunni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi á morgun. Árni Páll sagði sláandi að sjá ráðherra ríkisstjórnarinnar koma gjörsamlega af fjöllum og sagði það fordæmalaust að Íslendingum sé ekki einu sinni hleypt að samningaborðinu.

„Nú er þannig komið fyrri ríkisstjórninni að hún kemst ekki að borðinu þegar fjallað er um brýn hagsmunamál Íslands. Þetta er einstakt, það eru ekki fordæmi fyrir öðru eins,“ sagði Árni Páll og spurði hvernig Sjálfstæðisflokkurinn gæti réttlætt það sem hann kallaði hrikaleg afglöp.

Hann benti á að utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins hafi um áratugi snúist um að gæta hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi, en til þess að gæta hagsmuna þurfi menn að komast að borðinu og vita hvað er á seyði.

„Það hlálega í þessu öllu saman er að þetta gerist daginn eftir að ríkisstjórnin setur fram nýja Evrópustefnu þar sem sérstaklega er tilgreint að leggja skuli meira upp úr vestnorrænu samstarfi,“ sagði Árni Páll og spurði hvort gleymst hefði að tilkynna Færeyingum og Norðmönnum að þeir væru orðnir hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands.

Alþingi fordæmi framkomu vinaþjóða

Bjarni Benediktsson sagði Árna Pál draga upp kolranga mynd af atburðum. Ísland hafi alla tíð setið við samningaborðið, þar til fyrir nokkrum dögum þegar þeir sem við höfum átt í viðræðum við ákváðu að funda sameiginlega án aðkomu Íslands.

„Sú ákvörðun þeirra að útiloka menn frá samningaborðinu, hún er forkastanleg,“ sagði Bjarni og bætti við að sama í hvaða flokki menn væru ættu þeir að geta verið sammála um að fordæma þá framkomu vinaþjóða að taka sameiginlega ákvörðun um að hætta að tala við Íslendinga.

„Við eigum að senda skýr skilaboð til Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins, sem hafa þóst vera í eiginlegum samningaviðræðum við okkur, um að þetta kunnum við ekki að meta,“ sagði Bjarni.

Alþingi Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Alþingi Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert