Geir landlæknir gaf syni sínum nýra

Feðgarnir Geir Gunnlaugsson landlæknir og Gunnlaugur Geirsson.
Feðgarnir Geir Gunnlaugsson landlæknir og Gunnlaugur Geirsson. Ómar Óskarsson

„Það kom aldrei neitt annað til greina,“ segir Geir Gunnlaugsson landlæknir sem fyrir tveimur vikum gaf Gunnlaugi syni sínum annað nýra sitt. Feðgunum heilsast vel, þeir safna nú kröftum eftir aðgerðirnar og líta bjartsýnir fram á veginn.

Gunnlaugur er 28 ára gamall lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu. Hann greindist með IgA-nýrnamein árið 2005, þá 19 ára gamall, en meinið hefur þau áhrif að nýrun hreinsa ekki blóðið í líkamanum.

Þá hóf hann lyfjameðferð sem hélt framrás sjúkdómsins niðri í nokkur ár, þar til í árslok 2012. Fram að því hafði sjúkdómurinn lítil áhrif á líf Gunnlaugs, sem hefur ávallt stundað íþróttir, lauk laganámi frá Háskóla Íslands og hefur ferðast víða um heim.

Vissi í fyrstu ekki hvað var að

„Þá fyrst fór ég að finna fyrir vaxandi einkennum. Ég vissi í fyrstu ekkert hvað var að mér og hélt að þetta væri flest annað en nýrun; ég leitaði því m.a. til augnlæknis því að mér fannst sjónin versna, mér var alltaf kalt, ég var alltaf þreyttur og þróttlítill og hélt jafnvel að þetta væri vegna lofræstikerfisins í vinnunni,“ segir Gunnlaugur um líðan sína í árslok 2012. „Síðan kom í ljós að þetta voru nýrun og að sjúkdómurinn fór versnandi. Það var ljóst að stefndi í ígræðslu innan 2-5 ára. En mér hrakaði enn og ígræðsla varð því nauðsynleg við fyrsta mögulega tækifæri.”

Það kom aldrei neitt annað til greina

Þegar fyrir lá að Gunnlaugur þyrfti nýragjöf báðu foreldrar hans þau Geir og kona hans, Jónína Einarsdóttir, um að þau yrðu rannsökuð með nýragjöf í huga. Fljótlega kom í ljós að Geir var heppilegri kostur og að rannsóknum loknum lá fyrir að hann væri hentugur gjafi fyrir Gunnlaug. „Þegar við stóðum frammi fyrir því að það stefndi í þetta, þá kom aldrei neitt annað til greina í  huga okkar en að bjóðast til að gefa honum nýra,“ segir Geir. „Það var farið ítarlega í gegnum mig með alls konar prófum og skoðunum og niðurstaðan var sú að ég væri hæfur sem nýragjafi.“

Hafðir þú einhvern tímann áður íhugað að gefa líffæri? „Ég hafði aldrei áður staðið frammi fyrir þeirri spurningu. En þegar sonur minn var að fara á lokastig nýrnabilunar, þá var valið mjög auðvelt.“

Fékk mörg tilboð um nýra

„Ég vissi að þau höfðu látið athuga hvort þau gætu gefið, en í þessu ferli er reynt að aðskilja ferli gjafans og þegans. En ég gat auðvitað ekki annað en vitað af því hvað þau voru að gera,“ segir Gunnlaugur. „Margir aðrir höfðu samband við mig og buðust til að gefa mér nýra, bæði vinir og ættingjar. Ég veit ekki hvort einhverjir þeirra voru heppilegir gjafar, því það reyndi aldrei á að kanna það. Ég er samt ótrúlega þakklátur þessu fólki.“

Kom þér á óvart að svona margir væru tilbúnir að leggja þetta á sig fyrir þig? Já, algjörlega. Þetta er stór aðgerð fyrir fullfrískan einstakling að leggja þetta á sig og ekki sjálfgefið.“

Hver væri staðan í dag, hefðir þú ekki fengið nýtt nýra? „Þá hefði ég væntanlega farið á biðlista eftir nýju nýra og síðan farið reglulega í blóðskilun þangað til mér byðist nýra, annaðhvort frá lifandi gjafa eða látnum.“

Margir bíða eftir nýju nýra

Fyrsta nýraígræðslan fór fram á Íslandi í desember 2003, en fram að þeim tíma voru allar nýraígræðslur í Íslendinga gerðar erlendis. Núna hafa rúmlega 70 Íslendingar fengið ígrætt nýra úr lifandi einstaklingum á Landspítalanum. Þegar um er að ræða ígræðslu úr látnum einstaklingi er aðgerðin gerð erlendis. Að sögn Geirs eru um 100 Íslendingar í blóðskilun og margir þeirra hafa beðið lengi eftir nýra.

Lærdómsríkt fyrir landlækni að liggja á sjúkrahúsi

Jóhann Jónsson ígræðsluskurðlæknir framkvæmdi aðgerðina á Gunnlaugi í samvinnu við aðra sérfræðinga á Landspítalanum. Jóhann er búsettur erlendis, en kemur reglulega hingað til lands og gerir þá nokkrar ígræðsluaðgerðir í einu. Þegar feðgarnir fóru í aðgerðina 26. febrúar gerðu Jóhann og samstarfsmenn hans alls fjórar slíkar aðgerðir. Feðgarnir láta vel af heilbrigðisþjónustunni og segir Geir það hafa verið lærdómsríka reynslu fyrir sig að liggja á sjúkrahúsi.

„Bæði fyrir mig sem persónu og sem landlækni. Það er oft verið að takast á við mjög flókin verkefni í heilbrigðiskerfinu og þau eru unnin af þekkingu, hlýju og mikilli alúð. Allir, óháð stöðu sinni, hafa sitt hlutverk og það eru stórir atburðir að gerast  í hverri einustu sjúkrastofu,“ segir Geir. „Það þarf frábært fólk til að vinna í þessu og við Íslendingar ættum að vera stolt af heilbrigðiskerfinu okkar og þeim sem vinna þar. Við erum mjög þakklátir öllum þeim sem komu að þessu ferli og það er heldur ekkert sjálfsagt alls staðar í heiminum að allir hafi jafnan aðgang að aðgerð sem þessari, eins og háttar til hér á landi. Ígræðsla nýra er í framlínu læknavísinda og frábært að hægt sé að bjóða upp á slíka hágæðaþjónustu hér á landi.“

Bara flott að vera með nýrað hans pabba

Eftir að annað nýrað hefur verið fjarlægt úr fólki stækkar hitt nýrað og tekur við hlutverki beggja. Geir segir brottnám nýrans hafa heppnast vel. „Mín aðgerð er annars minnsti hlutinn af þessu öllu saman og það væri varla hægt að segja að hún væri vel heppnuð nema nýrað hefði tekið vel við sér, lifað áfram og unnið sína vinnu hjá Gunnlaugi.“  

Nýrað úr Geir hóf að starfa um leið og það var komið í Gunnlaug og þess beið ærinn starfi að hreinsa úrgangsefni úr blóði hans sem safnast höfðu fyrir. „Alveg bara svona,“ segir Gunnlaugur og smellir fingrum. „Það fór strax í yfirvinnu og nú er ég með 63 ára gamalt nýra.“ „Það er reyndar ekki nema 62 ára,“ leiðréttir faðir hans hann snarlega og feðgarnir skella upp úr.  

„Það er bara flott að vera með nýrað hans pabba. En ígrædd nýru endast að meðaltali í 10-15 ár, þannig að ég verð kannski ekki með það alla ævina,“ segir Gunnlaugur. „Reynslan ein sker þó úr um hversu lengi.“

Krefst eftirlits og aðhalds alla ævi

Gunnlaugur mun þurfa að taka lyf það sem eftir er, hann er á ónæmisbælandi lyfjum sem gefin eru til þess að líkaminn hafni ekki nýranu. Hann er undir miklu eftirliti og þarf að gæta vel að mataræði sínu. Geir segir að þeir geri sér grein fyrir að þótt aðgerðin hafi gengið vel og líkami Gunnlaugs hafi tekið nýranu vel, þá sé þetta bara fyrsta skrefið.

„Við erum auðvitað ánægð með árangurinn fram að þessu, en erum samtímis mjög meðvituð um að þetta er langt ferli. Ígrætt líffæri krefst aðhalds og eftirlits alla ævi,“ segir Geir.

Nýragjafar fljótir að jafna sig

Eftir aðgerðina var Geir á sjúkrahúsi í sex daga og Gunnlaugur útskrifaðist tveimur dögum síðar. Gunnlaugur hefur verið í veikindaleyfi frá vinnu síðan um miðjan desember, sem er reyndar í fyrsta skipti sem hann tekur slíkt leyfi vegna nýrnasjúkdómsins. Hann stefnir að því að snúa aftur til starfa eftir 3-4 mánuði en Geir verður frá vinnu alls í 4-6 vikur.

„Okkur hefur gengið ágætlega síðan við komum heim. Ef ég tala bara fyrir sjálfan mig, þá finn ég fyrir því að ég hafi verið í aðgerð. En ég finn engan annan mun á mér, mér líður vel og mér fer fram á hverjum degi, enda eru nýragjafar yfirleitt fljótir að jafna sig,“ segir Geir sem stefnir að því að fara aftur til starfa í lok mánaðarins.

Enginn óskar sér að vera í þessari stöðu

„Það er svo ánægjulegt að sjá hvernig Gunnlaugur styrkist dag frá degi. Við styðjum hvor annan. Þetta er verkefni sem við fengum, við fjölskyldan. Enginn óskar sér að vera í þessari stöðu, en ef það gerist þá tekur maður á því. Þetta var langbesta lausnin og ég er einlæglega mjög hamingjusamur yfir því að hafa getað tekið þátt í þessari lausn,“ segir Geir.

Frá Landspítalanum. Feðgarnir eru þakklátir öllum þeim sem komu að …
Frá Landspítalanum. Feðgarnir eru þakklátir öllum þeim sem komu að ferlinu. Þorvaldur Örn Kristmundsson
Skýringarmynd af nýra. Myndin er af vefsíðu Landspítalans.
Skýringarmynd af nýra. Myndin er af vefsíðu Landspítalans. landspitali.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert