Ísland láti Norðmenn heyra það

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti munnlega skýrslu um óvænta þróun mála …
Sigurður Ingi Jóhannsson flutti munnlega skýrslu um óvænta þróun mála í makríldeilunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sjávarútvegsráðherra segir vinnubrögð Evrópusambandsins og Færeyja valda vonbrigðum. Nú stefni í ofveiðar og offramboð af makríl. Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon skora á utanríkisráðherra að krefjast skýringa og stappa niður fæti gegn Norðmönnum, sem þeir saka um klækjabrögð.

Ljóst þykir að með samkomulaginu, sem Ísland á ekki hlutdeild að, stefnir í mikla ofveiði á makríl, sem gæti reynst Íslendingum dýrkeypt.

Mikil vonbrigði

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegsmála, flutti munnlega skýrslu á Alþingi nú síðdegis um þá óvæntu stöðu sem komin er upp í makríldeilunni, og varð ljós í gærkvöldi þegar tilkynnt var um samning milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja um skiptingu veiðiheimilda á makríl.

Samningurinn er til 5 ára og voru Íslendingar ekki upplýstir um að hann væri í burðarliðnum. Sigurður Ingi sagði þessa þróun afar óvænta í ljósi þess að samningaviðræðurnar steyttu á Noregi og var slitið í síðustu viku með þeim orðum aðalsamningamanns ESB að þær væru fullreyndar að sinni.

Það væri alrangt að íslenska sendinefndin hafi slitið viðræðunum.

Stefnir í ofveiði og offramboð

Sjávarútvegsráðherra sagði það sérstaklega mikil vonbrigði að ESB hefði vikið frá þeim grunni sem náðst hefði í samningum við Ísland í fyrra, því augljóst væri að nýja samkomulagið mundi leiða til mikillar ofveiði miðað við vísindaráðgjöf.

Undir þetta tóku bæði Steingrímur Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, sem sagði það ekki ofsagt að með þessu væri komið í bakið á Íslendingum. 

„Ég varð gjörsamlega öldungis hlessa í gær þegar þessar fréttir bárust,“ sagði Össur og að grátlegt væri að Íslendingar væru komnir í þessa stöðu. Allar líkur væru nú á ofveiði og offramboði á mörkuðum fyrir makríl.

Klækjabrögð Norðmanna

Össur sakaði Norðmenn um að beita klækjabrögðum og sagði utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, hafa sofið við stýrið.

„Það sem vakir fyrir Norðmönnum er að veiða stofninn niður [...] til að koma í veg fyrir að hann komi hingað. Þess vegna er þetta svo alvarlegt,“ sagði Össur. Hann skoraði á utanríkisráðherra að fara til Færeyja til viðræðna, og jafnframt til að „stappa harkalega niður fæti“ gegn Norðmönnum.

Makrílveiðar Íslendinga pirrað Norðmenn óendanlega

Steingrímur J. Sigfússon sagði tíðindi gærkvöldsins alvarleg og stöðu Íslands vandasama, en sagði að ekkert í framgöngu Norðmanna kæmi honum á óvart enda hefði lengi legið fyrir að þeir væru okkar erfiðasti andstæðingur í makríldeilunni.

„Veiðar Íslendinga á makríl hafa pirrað Norðmenn alveg óendanlega allt frá byrjun, það veit sá sem hér stendur,“ sagði Steingrímur en að framkoma Færeyja og Evrópusambandsins væri meira undrunarefni.

„Evrópusambandið gengisfellir sjálft sig með því að taka þátt í samkomulagi sem er ávísun á um það bil hálfrar milljónar tonna veiði umfram ráðgjöf, með tilheyrandi áhrifum fyrir markaðinn,“ sagði Steingrímur.

Þurfum að krefjast skýringa

Steingrími sárnar að sögn framkoma Færeyinga, en sagði það jafnframt staðreynd að þeir hefðu nú landað gríðarlega góðum samningi fyrir sitt leyti.

„Við þurfum að krefja Evrópusambandið og Færeyinga skýringa, hvernig á því stendur að Ísland er skilið svona eftir þegar skjalfest og viðurkennt er að það voru Norðmenn sem strandaði á þegar staðið var upp frá samningaborðinu í síðustu viku.“

Hann áréttaði að Ísland væri ekki eitthvert utangarðsland heldur viðurkennt strandríki með þeim réttindum sem því fylgdi. Því væri það „ósvífið að ganga frá samkomulagi til 5 ára án þess að láta okkur vita á meðan það væri í fæðingu“.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert