Borgaryfirvöld lögðu fram bréf frá innanríkisráðuneytinu á fundi borgarráðs í dag þar sem ráðuneytið tekur vel í hugmyndir borgarinnar um að flytja Héraðsdóm Reykjavíkur af Lækjartorgi. Auk þessu lýsir ráðuneytið sig reiðubúið til viðræðna. Borgin hefur skipað viðræðuhóp sem mun fara yfir stöðuna með fulltrúum ráðuneytisins á næstunni.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, fagnar jákvæðum viðbrögðum ráðuneytisins.
„Þetta hefur lengi verið í deiglunni; Andri Snær Magnason [rithöfundur] setti fyrst fram þessa hugmynd að flytja héraðsdóm af Lækjartorgi. En það hefur lítið gerst í þessu - við erum búin að taka þetta upp við marga dómsmálaráðherra síðan. En núna sendum við bréf til innanríkisráðherra og tókum málið upp að nýju, og - það sem ekki hefur gerst áður - er að við fengum jákvætt svar,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.
Þá segir hann að borgaryfirvöld hafi útskýrt í bréfinu að Héraðsdómur Reykjavíkur væri illa staðsettur á Lækjatorgi, en það gæti mögulega farið vel að dómstóllinn færi fluttur á lögreglustöðvarreitinn við Hlemm.
„Þar er hægt að byggja töluvert, bæði fyrir héraðsdóm og jafnvel nýja millidómstigið. Menn hafa verið að slá á það að það sé hægt að byggja allt að 13.000 fermetra þar, sem er svona eitt stykki Austurbæjarskóli,“ segir Dagur.
„Ég geri ráð fyrir að þær [viðræðurnar] fari strax af stað. Við erum vel undirbúin og við erum búin að kortleggja hvað væri hægt að byggja við Hlemm og við erum reiðubúin að vinna að því að þetta gangi hratt og vel.“ Hann bætir við að engar tímasetningar liggi fyrir í málinu að svo stöddu.
Þá segir Dagur, að hugsunin á bak við flutninginn snúist ekki síst um meira lifandi Lækjartorg. „Við viljum að borgin sé meira lifandi á svona lykilstöðum á kvöldin. Það eru margir sem hafa bent á þarna gætu verið kjöraðstæður fyrir miðborgargalleríu með litlum búðum,“ segir hann.
„Lækjartorg má við upplyftingu,“ segir Dagur að lokum.