Ögmundur hótaði úrsögn 2009

Ögmundur Jónasson hótaði að segja af sér sem heilbrigðisráðherra skömmu eftir að vinstristjórn VG og Samfylkingar var mynduð ef staðið yrði við hótun um að víkja Jóni Bjarnasyni úr ríkisstjórn. Þetta fullyrðir Jón á bloggsíðu sinni.

Ágreiningsefnið var hvort efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn að Evrópusambandinu og segir Jón málið hafa valdið slíkum deilum að öll herbergi þinghússins hafi fyllst af reyk.

Jón var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í upphafi stjórnartíðar VG og Samfylkingar og Ögmundur heilbrigðisráðherra. Jón hvarf úr ráðuneyti sínu 31.12. 2011.

Stjórnarsamstarfið færi þá út um þúfur

Orðrétt skrifar Jón um þessa atburðarás:

„Þegar  fram kom tillaga um að þjóðin yrði spurð áður en sótt væri um studdi ég þá tillögu og lýsti því yfir á þingflokksfundi. Enda var það í samræmi við þá yfirlýsingu, að hver þingmaður færi eftir sinni sannfæringu í þessu máli utan þings sem innan, eins og formaðurinn orðaði það í atkvæðaskýringu sinni. Fyrir atkvæðagreiðsluna voru haldnir neyðarfundir í stjórnarþingflokkunum, þegar ljóst var að mögulega nyti tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu meirihlutastuðnings á Alþingi.

Forystulið beggja ríkisstjórnarflokkanna lagðist afar hart gegn þjóðaratkvæðagreiðslu þá. Forysta VG var þá nýbúin að ganga á bak orða sinna um andstöðu við aðildarumsókn í aðdraganda kosninga, enda gekk sú ákvörðun þvert á stefnu flokksins. Var því haldið fram að yrði farið þá í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um færi stjórnarsamstarfið  samstundis út um þúfur.

Samfylkingin, sem hafði ESB-umsókn þá sem fyrr og síðar sem sitt eina mál, leit á það sem stjórnarslit ef þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu yrði samþykkt á Alþingi. Hún hafði áður látið steyta á aðildarumsókn í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.“

Hótað brottrekstri úr ríkisstjórn

Jón segir Steingrím J. Sigfússon, formann VG, hafa stillt honum upp við vegg.

„Þegar kom svo í fréttum að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu nyti stuðnings hóps þingmanna  Vinstri grænna og gæti orðið samþykkt fylltust öll herbergi þinghússins af reyk. Á þingflokksfundi VG um málið var stemningin þrungin og þegar ég sagðist myndu styðja þjóðaratkvæðagreiðslu til vara féll sú ákvörðun vægast sagt í mjög grýttan jarðveg. Var mér þá einfaldlega hótað brottrekstri úr ríkisstjórn af formönnum beggja stjórnarflokkanna. Eða eins og formaður VG orðaði það, þá var mér ætlað að ganga á fund forsætisráðherra.

Ögmundur Jónasson, sem lagði mikið í sölurnar fyrir myndun fyrrverandi ríkisstjórnar, stóð þá upp og tilkynnti að ef Jón Bjarnason ætti að ganga með höfuð sitt á fati til forsætisráðherra þá myndi heilbrigðisráðherra ganga sömu leið.“ 

Grein Jóns má lesa í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert