Segir að Noregur hafi aldrei ætlað að semja

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur ljóst að Noregur hafi aldrei ætlað að semja um þann hlut makrílkvótans sem Ísland getur sætt sig við né um veiðar á grundvelli ráðgjafar.

Í gær sömdu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar um skiptingu veiðiheimilda á makríl. Ísland stendur utan þess samkomulags en ljóst var eftir fund í Edinborg i síðustu viku að fullreynt væri að ná samningi sem byggðist á nýtingu á grundvelli ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) líkt og íslenska samninganefndin lagði áherslu á. Samkomulag þessara þriggja ríkja er til næstu fimm ára og taka þau sér samtals 1.047.000 tonna afla í ár eða nær 18% umfram ráðgjöf ICES. Þar af taka ESB og Noregur til samans 890.000 tonn, sem er allur ráðlagður heildarafli á þessu ári.

Um þetta segir Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra á vef ráðuneytisins: „Við tókum þátt í samningaviðræðunum til þess að tryggja réttmætan hlut Íslands á grundvelli sjálfbærra veiða. Ljóst var að Færeyingar sæktust jafnframt eftir auknum hlut frá fyrri samningi. Niðurstaða þess samnings sem í gær var kynntur er að hlutur ESB og Norðmanna hækkar frá því sem var, í 100% af ráðgjöf, þ.e. 890 þúsund tonn og svo bæta þeir veiðum Færeyinga ofan á.“

Ísland og ESB höfðu í haust náð samkomulagi um hlut Íslands í veiðunum á grundvelli sjálfbærrar nýtingar. Í samkomulaginu fólst að hlutur Íslands yrði aldrei minni en 11,9% af leyfilegum heildarafla en til næstu tveggja ára yrði aflinn ekki minni en 123 þúsund tonn, sem samsvarar um 13,8% af ráðgjöfinni í ár.

Sigurður Ingi: „Við vorum tilbúin til þess að teygja okkur þetta langt í því skyni að ná samningum um sjálfbæra nýtingu stofnsins, enda var tækifærið til samninga einstakt í ljósi ráðgjafar um stóraukinn heildarafla. ESB fullvissaði okkur um að það myndi tryggja það sem til þyrfti til að koma samkomulaginu í höfn, þ.m.t. stuðning Noregs. Í seinni samningalotunum var þó ljóst að ESB færðist nær kröfu Norðmanna sem byggðist á verulegri veiði umfram ráðgjöf. Þannig hefur það þróast að Evrópusambandið gekk á bak orða sinna og hefur í stað þess að standa við það samkomulag sem Ísland og ESB náðu á grundvelli sjálfbærra veiða skrifað undir samning við Noreg og Færeyjar sem einn og sér stuðlar að veiðum langt umfram ráðgjöf, og þá eru ekki teknar með veiðar Íslands, Grænlands og Rússlands. Þannig er ljóst að heildarveiðin getur farið meira en 50% fram úr ráðgjöf.

Á síðustu fundum hefur Ísland m.a. lagt enn frekar af mörkum til að greiða fyrir samkomulagi. Ég tel það ljóst að Noregur hafi aldrei ætlað að semja um þann hlut sem Ísland getur sætt sig við né um veiðar á grundvelli ráðgjafar. Það var því smjörklípa þeirra á síðasta strandríkjafundi að ræða veiðar Grænlendinga og hvernig mætti koma í veg fyrir að Grænland geti nýtt það tækifæri sem við þeim blasir með aukinni göngu makríls í þeirra lögsögu til að byggja upp sínar fiskveiðar. Þetta leiddi m.a. til þess að ESB hvarf frá því samkomulagi sem Ísland og ESB höfðu og Noregur gat þar með komið í veg fyrir samning á þeim grundvelli og náð fram sinni kröfu um veiðar meira en helming fram úr ráðgjöf.“

Ísland og Færeyjar hafa setið undir hótunum ESB um beitingu viðskiptaþvingana láti Íslendingar ekki af meintum ofveiðum á makríl að mati Evrópusambandsins. Sigurður Ingi segir það vera með öllu ljóst að þær hótanir haldi ekki, fyrir utan að vera ólögmætar þá sé sá samningur sem hér er til umræðu byggður á niðurstöðu sem leiðir til ofveiði og ESB skrifar undir. Það væri því tvískinnungur að ætla að halda áfram hótunum um viðskiptaþvinganir á grundvelli ofveiði. „Við höfum hins vegar alltaf lagt áherslu á samkomulag sem fylgir vísindalegri ráðgjöf,“ bætir Sigurður Ingi við.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um leyfilegan heildarafla íslenskra skipa en hún verður tekin á næstu vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert