Stefnt að gjaldtöku á morgun

Þeir sem eru 17 ára og eldri munu þurfa að …
Þeir sem eru 17 ára og eldri munu þurfa að greiða 600. kr. vilji þeir skoða hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð. mbl.is/Kristinn

Stefnt er að því að hefja gjaldtöku við Geysissvæðið, þ.e. inn á hverasvæðið við Geysi í Haukadal í Bláskógabyggð, síðdegis á morgun. „Það eru allar líkur á því að þetta hefjist seinni partinn á morgun. Í síðasta lagi á laugardag,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, í samtali við mbl.is.

Líkt og fram hefur komið átti gjaldtakan að hefjast sl. mánudag en félagið ákvað að fresta henni vegna lögbannskröfu fjármálaráðherra. Niðurstaða í málinu lá fyrir í gær þegar sýslumaðurinn á Selfossi hafnaði kröfu ráðherra. 

Landeigendafélagið hefur undirbúið gjaldtökuna síðustu mánuði og um leið þjónustu á svæðinu. Þannig hafa níu starfsmenn verið ráðnir og tóku þeir til starfa 1. mars. Þá hafa bæklingar verið prentaðir og tæknimálin undirbúin, en unnið er að prófunum á tæknibúnaði. 

„Við höfum starfsfólk í hliðum og starfsfólk á svæðinu. Síðan höfum við samið við verslunareigandann handan götu að hann verði með sölu á miðum í samvinnu við okkur. Við munum líka gefa ferðaþjónustuaðilum kost á samningum við okkur,“ segir Garðar, m.a. um kaup á fyrirframgreiddum miðum og tilboðspökkum.

Eins og góður kaffibolli

Aðspurður segir Garðar að stakur miði inn á svæðið muni kosta 600 kr. fyrir 17 ára og eldri. „Það er góður kaffibolli, eins og ég hef leyft mér kalla það,“ segir Garðar og bætir við að gestir fái bækling í hendur.

Í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í gær kemur fram, að eigendur Geysissvæðisins hafi í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu.  

„Vinna við öryggisáætlun svæðisins og forgangsröðun verkefna er þegar hafin. Nýkynnt verðlaunatillaga um uppbyggingu á Geysissvæðinu undirstrikar nauðsyn þess að vernda svæðið, forða því frá skemmdum og auka upplifun ferðamanna. Geysissvæðið ber að vernda og gjaldtaka er forsenda þess,“ sagði m.a. í yfirlýsingunni. 

Heimilt að innheimta gjald við Geysi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert