Sex manna fjölskylda fór með Herjólfi frá Þorlákshöfn heim til Vestmannaeyja í fyrradag eftir dvöl á Selfossi þar sem yngsti fjölskyldumeðlimurinn kom í heiminn. Biðlisti var í einu ferð bátsins til Eyja þennan dag og því þurfti fjölskyldan að hafa hraðar hendur þegar ljósmæðurnar gáfu grænt ljós á heimför.
Þar til samningar nást í viðræðum Sjómannafélags Íslands, fyrir hönd starfsmanna Herjólfs, við SA, fyrir hönd Eimskips, mun skipið sigla eins oft og það kemst á milli lands og Eyja til klukkan 17 á daginn í miðri viku. Engar ferðir verða um helgar. Þegar Herjólfur þarf að sigla milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja, sem er oftar en ekki yfir veturinn, tekur siglingin þrjár klukkustundir og því liggur beint við að færri ferðir verða þá daga.
„Við fórum einum degi fyrr á Selfoss til að geta nýtt okkur Landeyjahöfn. Það var aftur á móti erfiðara að komast til baka,“ segir Aníta Ársælsdóttir, hjúkrunarfræðingur og nýbökuð móðir í Vestmannaeyjum. Aníta gerði ráð fyrir að geta fætt son þeirra Sigurðar Odds Friðrikssonar, eiginmanns hennar, í Eyjum en vegna aðstæðna þurfti hún að fara upp á land og fæða barnið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
„Þegar drengurinn var útskrifaður tók við stress að ná bátnum,“ segir Aníta en hjónin vildu gjarnan komast heim á leið og ná einu ferð Herjólfs þennan dag. „Við rétt náðum að komast af spítalanum svo við gætum náð bátnum, en það var þó varla búið að útskrifa mig.“ Blóðþrýstingur Anítu var í hærra lagi og segir hún að stressið sem fylgdi óvissu heimfararinnar hafi án efa hafa átt þátt í því.
Aníta og Sigurður eiga fyrir þrjár dætur, 3, 5 og 6 ára og fór fjölskyldan því öll saman á Selfoss. Sex manna fjölskyldu fylgir töluverður farangur og þurftu þau einnig að hafa bílinn meðferðis.
„Ég myndi hugsa mig tvisvar um í dag ef ég væri að velta fyrir mér að flytja til Vestmannaeyja,“ segir Aníta. Þegar hún flutti til Vestmannaeyja fyrir nokkrum árum ásamt eiginmanni sínum var Landeyjahöfn í sjónmáli en nú hefur komið í ljós að hana er ekki hægt að nýta allt árið.
„Ég sá fyrir mér að Landeyjahöfn myndi virka en mér finnst mjög mikill löstur að hún virki ekki. Það munar til að mynda miklu fjárhagslega,“ segir Aníta. Fjölskyldan greiðir 30 þúsund fyrir ferðina með Herjólfi til Þorlákshafnar en 10 þúsund krónur ef Herjólfur fer til Landeyjahafnar.
„Ég læt ýmislegt yfir mig ganga en nú finnst mér komið nóg. Mér finnst ég hafa verið illa svikin með Landeyjahöfn. Við sáum fram á bættar samgöngur en það hefur ekkert gerst í þeim málum,“ segir Aníta.
Hún tekur fram að hún styðji starfsmenn Herjólfs í kjaradeilu þeirra og starfsfólk flugfélagsins hafi þar að auki staðið sig vel og boðið upp á fleiri ferðir síðustu daga. Flugferð fyrir sex manna fjölskyldu hafi aftur á móti verið of kostnaðarsöm og því hafi fjölskyldan þurft að velja Herjólf. „Ljósmæðurnar mæla með að flugið sé tekið og það er líka þægilegast og öruggast fyrir barnið,“ segir Aníta.
Frétt mbl.is: Vond staða fyrir Eyjamenn.