Flestir bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands (46,5%), Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (46,1%), og Jóns Gnarrs borgarstjóra (39,4%), samkvæmt nýrri könnun MMR.
Annað forystufólk í stjórnmálum sem könnunin náði til naut mikils trausts um eða undir fjórðungs þeirra sem tóku afstöðu. Að undanskildum Jóni Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, hefur traust til alls forystufólks í stjórnmálum sem könnunin náði til dregist saman frá síðustu könnun í júní 2013, segir í fréttatilkynningu frá MMR.
Mest dregur úr trausti á Sigmund Davíð og Hönnu Birnu
Frá síðustu mælingu (frá júní 2013) dróst traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur mest saman. Í siðustu mælingu sögðust 48,8% bera mikið traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, borið saman við 23,2% nú, og þá sögðust 51,5% bera mikið traust til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borið saman við 26,8% nú.
Af þeim sem tóku afstöðu sagðist meirihluti bera mikið traust til formanns þess flokk sem það kaus í síðustu alþingiskosningum. Þegar traust til flokksformanna var skoðað eftir stuðningsfólki eigin flokka kom í ljós að Katrín Jakobsdóttir naut mikils trausts meðal 90,1% þeirra sem kusu Vinstri-græn í síðustu kosningum, Guðmundur Steingrímsson naut mikils trausts meðal þeirra sem kusu Bjarta framtíð, Birgitta Jónsdóttir naut trausts 67,2% þeirra sem kusu Pírata, Bjarni Benediksson naut trausts 63,0% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, Árni Páll Árnason naut trausts 62,7% þeirra sem kusu Samfylkinguna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson naut trausts 56,7% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum.
Samfylkingarfólk treystir formanni VG betur en sínum formanni
Aðeins í tilfelli þeirra sem kusu Samfylkinguna í síðustu alþingiskosningum ríkti meira traust til einstaklings sem tilheyrði öðrum flokki en til formanns flokksins. Þannig naut Katrín Jakobsdóttir trausts 80,7% þeirra sem studdu Samfylkinguna á meðan Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, naut trausts 62,7% þeirra sem studdu Samfylkinguna.