Versnandi vatnsbúskapur

Blöndulón á Auðkúluheiði í ágætu horfi fyrir nokkrum árum. Innrennslið …
Blöndulón á Auðkúluheiði í ágætu horfi fyrir nokkrum árum. Innrennslið í lónið á síðasta ári var hins vegar nálægt sögulegu lágmarki. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Síðasta vatnsár var eitt hið slakasta í sögu fyrirtækisins en við komumst í gegnum það án skerðingar á raforku. En síðan hefur þetta ár einnig farið illa af stað, sérstaklega á Tungnaár- og Blöndusvæðinu.“

Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, en vegna minnkandi vatnsforða í miðlunarlónum á hálendinu hefur Landsvirkjun orðið að grípa til skerðingar á raforku til stóriðju og í heildsölu til annarra orkufyrirtækja.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að ekki er útilokað að til frekari skerðingar þurfi að koma en Landsvirkjun er að endurmeta þá þörf þar sem horfur í vatnsbúskapnum hafa farið versnandi á undanförnum vikum.

Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun kemur fram að horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar hafa farið versnandi síðustu vikur vegna sögulega lítils innrennslis í Þórisvatn og Blöndulón og óvenjulega óhagstæðs tíðarfars að undanförnu með ríkjandi norðaustanáttum, kulda á hálendinu og lítilli úrkomu á lykilsvæðum.

„ Vatnsárið í fyrra var næst versta vatnsár í sögu Landsvirkjunar vegna úrkomuleysis og kulda á hálendinu síðasta vor og sumar og ekki náðist að fylla öll lón haustið 2013.  Yfirstandandi vatnsár stefnir mögulega í að vera jafn slæmt.

Eins og komið hefur fram hefur viðskiptavinum í stóriðju og heildsölu verið tilkynnt um skerðingar á raforkuafhendingu í samræmi við samninga. Áætlanir hafa gert ráð fyrir að draga í heild úr orkuafhendingu sem nemur 260 GWst eða um 2% af orkuvinnslu Landsvirkjunar.

 Landsvirkjun endurmetur nú skerðingarþörf raforkuvinnslu vegna þessara óvenjulegu aðstæðna,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.

Rennsli í Tungnaá komið niður fyrir sögulegt lágmark og rennsli í Blöndu og efri hluta Þjórsár nálægt sögulegu lágmarki

„Á bráðum 50 ára langri starfstíð Landsvirkjunar hefur byggst upp haldgóð þekking á rennsli þeirra fallvatna sem fyrirtækið nýtir. Vitað er að rennsli þeirra er breytilegt frá ári til árs og stöðugt er fylgst með því hvernig eðli ánna breytist með breytingum í veðurfari.

Í áætlunum fyrirtækisins er miðað við sögulegar upplýsingar um rennsli síðustu 55 árin að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á veðurfari vegna hlýnunar loftlags. Undanfarin 10 ár hefur óvenju hátt hlutfall ára verið með innrennsli ofan meðallags og einungis eitt ár, árið í fyrra, með rennsli langt undir meðallagi. Í fyrra var rennsli mjög nálægt lægstu spám og náði hvorki Blöndulón né Þórisvatn að fyllast. 

Innrennsli það sem af er vetri hefur verið afbrigðilegt. Rennsli í Tungnaá hefur verið minna en finna má í mælingum síðustu 55 árin og einnig er rennsli í Blöndu nálægt sögulegu lágmarki.

Tíðarfar á yfirstandandi vetri hefur verið mjög óhagstætt. Í febrúar var tíðarfar óvenjulegt, eins og lesa má um á vef Veðurstofu Íslands. www.vedur.is/um-vi/frettir/nr/2843 Óvenjueindregin austan- og norðaustanátt var ríkjandi í mánuðinum. Úrkoma var langt undir meðallagi um landið vestanvert og sérlega þurrt inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Febrúar var víða hinn þurrasti um áratugaskeið, til dæmis í Reykjavík frá 1966.

Það eru fleiri en Íslendingar sem hafa upplifað sérstætt tíðarfar og fréttir að veðri víða um heim verið áberandi. Sem dæmi má nefna fátíða þurrka á vesturströnd Bandaríkjanna og kulda sem lagst hafa yfir nær öll önnur svæði Bandaríkjanna og einstaklega votviðrasaman vetur á Englandi þar sem rigningarmet eldri en 250 ára hafa verið slegin á einstaka svæðum,“ segir í fréttatilkynningu.

Þar kemur enn fremur fram að nú sem áður er lögð áhersla á örugga afhendingu raforku til langs tíma og aðgerðir Landsvirkjunar munu taka mið af að innrennsli verði samkvæmt lægstu spám þrátt fyrir að margt bendi til þess að ástandið gæti verið að breytast. Vonast er til að það rætist úr veðrinu, kröftugar lægðir gangi yfir landið með hlýindum og úrkomu þannig að mögulegt sé að aflétta skerðingum, segir enn fremur í fréttatilkynningu sem hægt er að lesa í heild hér að neðan.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert