Knattspyrnuþjálfari hjá KA hefur ákveðið að banna alla síma í keppnisferðum og á æfingum. Fékk hann nóg af sífelldri notkun símanna sem truflaði orðið þjálfun unglinganna. Egill Ármann Kristinsson, knattspyrnuþjálfari hjá KA, skrifar grein um málið á vefinn Akureyri.net. Þar kemur fram að unglingarnir hafi í fyrstu kvartað sáran en svo sætt sig við bannið.
„Ég og meðþjálfarar mínir ákváðum að taka á þessu vandamáli, sem símar eru, meðal unglinga,“ skrifar Egill. „Vendipunkturinn var þegar einstaklingur var að skoða í símanum sínum á meðan upphitun var í gangi fyrir æfingu hjá okkur. Síðan tók viðkomandi upp síman aftur um einni mínútu eftir að æfingu lauk á meðan við þjálfararnir vorum að ávarpa hópinn.
Á þeim tímapunkti var þetta komið gott. Ákveðið var að nú væru allir símar bannaðir í keppnisferðum, á æfingum og þegar hópurinn kæmi saman. Þegar þessu var slengt framan í hópinn lá við að hópurinn myndi éta okkur með spurningum sem byrjuðu allar á „af hverju“.
Þá tók við fræðslan ... „AF HVERJU“ var aðalatriðið í fræðslunni. „Af hverju“ ætluðum við að banna þessi tæki þegar hópurinn er saman.
Stærstu ástæðurnar eru samskipti leikmanna, svefn, maturinn og líkamsstaðan (meiðslin).
Þetta var útskýrt vandlega fyrir hópnum og komst þá aðeins meiri sátt á þessa reglu en samt ekki 100%.
Við þjálfararnir fórum yfir það hversu mikið var orðið um notkun snjallsíma sérstaklega. Þetta var orðið þannig meira að segja sl. sumar að við vorum spurðir hvort við gætum ekki stoppað á ákveðnum stöðum á leiðinni suður til Reykjavíkur sem er alls ekki venjan að stoppa á. Ástæðan fyrir því var sú að þar var frí Wi-Fi (internet) þar sem iðkendur gátu staðið á ákveðnum punkti og skoðað snapchat, facebook, instagram og fleira í þeim dúr.
Vikuna fyrir fyrstu símalausu ferðina fóru „AF HVERJU“-spurningar að dynja á okkur aftur, sömu svörin komu við þeim spurningum og var ákveðið að láta reyna á þetta. Hópurinn lagði af stað suður á föstudagsmorgni og var áætluð heimkoma á sunnudagskveldi. Þarna erum við að tala um heldur marga klukkutíma fyrir unglinga án þess að vera í sambandi við umheiminn.
Stelpurnar voru búnar að sætta sig við að þetta var staðan og var andrúmsloftið í rútunni með besta móti. Þarna voru stelpur að spjalla saman, skemmta sér á meðan einhverjar horfðu á mynd sem sýnd var í rútunni. Spurningar um „af hverju megum við ekki hafa síma“ voru ekki til staðar þegar þarna var komið.
Þetta var æfingaferð og prógrammið var stíft. Það var ekki fyrr en á laugardegi að fyrsta tuðið (sem stóð í mesta lagi 5 mínútur) um símaleysið átti sér stað. Ástæða þess var sú að þegar við vorum á fundi í Kaplakrika rákust stelpurnar á Jón Jónsson en enginn var með síma til að taka mynd af sér með honum.
Samskipti stelpnanna á milli voru ótrúleg. Einstaklingar sem eru ekki félagslega sterkustu einstaklingarnir í hópnum blómstruðu í þessari ferð. Hópurinn var þéttur og ekkert mál að koma þeim í rúmið á kvöldin og hvað þá vekja þær. Hópurinn spilaði mjög vel þessa þrjá leiki sem við spiluðum á jafnmörgum dögum og orkan næg.
Á leiðinni heim á sunnudag komum við þjálfararnir með spurningu á hópinn þar sem við vildum fá að vita hvort þetta hefði verið eins skelfileg upplifun og þær bjuggust við. Svarið var „NEI“. „Eruð þið til í að hafa allar ferðir svona?“ svarið var JÁ.“
Hér má lesa pistil Egils í heild.