Samtök atvinnulífsins, SA, segir framhaldsskólakennurum ekki hafa tekist að útskýra launakröfur sínar fyrir almenningi og öðrum samningsaðilum með skiljanlegum hætti. Laun félagsmanna Kennarasambands Íslands hefðu hækkað svipað mikið og laun félagsmanna BHM, sem kennarar miða sig við.
Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins.
Samtökin benda á að á tímabilinu 1990 til 2013 hafi laun á almennum vinnumarkaði dregist tæplega 20% aftur úr launum opinberra starfsmanna. Kaupmáttur launa opinberra starfsmanna hafi hækkað um 56% á tímabilinu en kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði um 30%.
Verkfall framhaldsskólakennara og stjórnenda í framhaldsskólum mun hefjast á mánudaginn, náist samningar ekki fyrir þann tíma.