Krafist refsiaðgerða gegn Íslandi

Evrópuþingmaðurinn Pat
Evrópuþingmaðurinn Pat "the Cope" Gallagher. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er ekki í vafa um að ef hún hefði gripið til refsiaðgerða gegn Íslandi á síðasta ári þá værum við ekki í þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem Íslendingar hafna enn eina ferðina samstarfi við hin strandríkin.“

Þetta sagði írski Evrópuþingmaðurinn Pat „the Cope“ Gallagher í umræðum í Evrópuþinginu í gær þar sem rætt var um nýtt samkomulag Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar næstu fimm árin sem Ísland er ekki aðili að. Beindi þingmaðurinn orðum sínum að Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins. Gallagher, sem var annar formanna sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins, fagnaði samkomulaginu samkvæmt frétt írska dagblaðsins Irish Times og kallaði ennfremur eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gripi til refsiaðgerða gegn Íslandi vegna makríldeilunnar en hann hefur ítrekað kallað eftir slíkum aðgerðum á undanförnum árum.

Fram kemur í fréttinni að Janusz Lewandowski, yfirmaður fjármála í framkvæmdastjórninni, hafi tekið undir það að það væru vonbrigði að Ísland hefði ekki viljað undirrita samkomulag um makrílveiðarnar. Sagði hann að hann myndi taka kröfur frá Evrópuþingmönnum um refsiaðgerðir gegn Íslandi til skoðunar. Vangaveltur um mögulegar refsiaðgerðir hafa lengi verið í umræðunni af hálfu Evrópusambandsins en íslensk stjórnvöld hafa ítrekað sagt að slíkar aðgerðir væru ólögmætar og gengu gegn alþjóða- og milliríkjasamningum.

Þá hafa íslenskir ráðamenn sagt að Íslendingar hafi ekki neitað að undirrita samning um makrílinn heldur hafi samkomulag strandað á Norðmönnum á fundi strandríkjanna í Edinburg í síðustu viku. Undir það hafi Evrópusambandið tekið. Í kjölfarið hafi formaður fundarins og aðalsamningamaður sambandsins slitið fundinum. Evrópusambandið hafi síðan hafi tvíhliða viðræður við Norðmenn sem Færeyingum hafi síðan verið hleypt inn í en ekki hafi verið haft samband við Íslendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert