Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Pál Matthíasson til að gegna embætti forstjóra Landspítala til næstu fimm ára. Skipunin tekur gildi 1. apríl. Lögskipuð nefnd sem mat hæfni umsækjenda taldi Pál hæfastan. Páll var settur forstjóri spítalans í október síðastliðnum.
Fjórir sóttu um stöðuna sem var auglýst í lok janúar síðastliðinn. Niðurstaða hæfnisnefndar sem starfar á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu mat Pál hæfastan til að gegna embættinu, segir meðal annars í umsögn sinni að Páll eigi glæstan náms- og starfsferil og búi yfir góðri og farsælli reynslu af stjórnun, bæði erlendis og á Landspítala.
Í frétt á vefsíðu Velferðarráðuneytisins segir að Páll hafi verið ráðinn í stöðu yfirlæknis á geðdeild Landspítala árið 2007 og árið 2009 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Geðsviðs sem fól í sér faglega og rekstrarlega ábyrð á starfseminni. Hann hefur átt sæti í framkvæmdastjórn Landspítala og í október 2013 var hann settur forstjóri sjúkrahússins.
Í fréttinni er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra að niðurstaða hæfnisnefndarinnar sé afgerandi og skýr: „Ég horfi mjög til þess hvernig Páli hefur tekist að byggja upp traust milli stjórnenda og starfsfólks spítalans. Þetta traust er grundvallaratriði og forsenda þeirrar samvinnu sem verður að vera fyrir hendi til þess að gera Landspítala að enn öflugra sjúkrahúsi allra landsmanna,“ er haft eftir Kristjáni.