Björgunarsveitarmenn í Mývatnssveit hafa á undanförnum árum ítrekað þurft að aðstoða ökumenn sem hafa lent í vanda við Hverfjall. Það gerðist síðast í dag. Björgunarsveitarmaður segir að vegurinn sé aldrei mokaður, það vanti allar merkingar og að þarna séu varasamar sprungur.
„Mér finnst algjörlega vanta hjá Umhverfisstofnun, af því að þetta er á þeirra forræði, að merkja þetta eitthvað betur, til þess hreinlega að það verði ekki þarna slys,“ segir Gísli Rafn Jónsson, sem er félagi í björgunarsveitinni Stefáni í Mývatnssveit. Hann tekur fram að hann tali í eigin nafni í þessu máli.
Hann segir í samtali við mbl.is, að á undanförnum árum hafi liðsmenn björgunarsveitarinnar farið í fjölmargar ferðir upp að Hverfjalli til að aðstoða bíla sem hafa lent í vanda. Það gerðist enn eina ferðina upp úr klukkan tvö í dag.
Að sögn Gísla var um erlenda ferðamenn að ræða sem voru þarna á ferð á bílaleigubíl. Ferðalag þeirra á Hverfjalli endaði með því að framhjól bifreiðarinnar, sem er jepplingur, hafnaði ofan í þröngri sprungu. „Hún er það breið að dekkin fóru alveg niður,“ segir hann ennfremur. Hann tekur þó fram að þarna hafi allt endað vel en það reyndist aftur á móti þrautin þyngri að ná bílnum upp úr sprungunni.
Gísli á sæti í stjórn björgunarsveitarinnar sem fundaði í gær. Þar var m.a. fjallað um erindi sem kom frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Vegagerðinni sem hafa beðið björgunarsveitir landsins um að benda á staði sem teljist vera varasamir.
„Frá þjóðveginum og upp að Hverfjalli er svona rúmur kílómetri upp á bílstæðin. Málið er að þessi vegur aldrei mokaður - aldrei. Þetta er bara sumarvegur. Á þessari leið - og sérstaklega þegar það kemur upp að fjallinu - þá eru sprungur. Ef þú ert ekki akkúrat á veginum, það er náttúrulega búið að fylla upp í sprungurnar [af snjó], þá getur þú hlunkast ofan í þessar sprungur; ekki bara þegar þú ert á bíl heldur líka ef þú ert labbandi,“ segir hann.
Vandamálið að sögn Gísla er að þarna vantar allar merkingar og við það er hann ósáttur. Það skjóti mjög skökku við enda vinsælt útivistarsvæði á meðal ferðamanna.
„Þarna verðum við að benda á Umhverfisstofnun vegna þess að Hverfjall er friðlýst, 2010 ef ég man rétt, og þar með lendir þetta undir Umhverfisstofnun. Málið er að niður við þjóðveg er ekkert merki um það, í fyrsta lagi að þessi vegur sé aldrei mokaður og í öðru lagi að þeir sem labbi þarna verði að passa sig á að vera á veginum, sem þú veist svosem ekkert hvar er en væri kannski hægt að merkja. Þetta er mál Umhverfisstofnunar.“
Þá segir Gísli að hann hafi margsinnis bent á þetta. „Mér finnst alveg óþarfi að fólk sé stofna sjálfu sér í hættu,“ segir hann og bætir við að það sé stórvarasamt fyrir fólk að ganga upp á fjallið að vetrarlagi. Fólk geti fallið ofan í sprungu og slasað sig.
Gísli, sem býr í námunda við fjalllið, segist reglulega sjá fólk reyna að komast upp fjallið. „Það stoppar og er kannski 20 mínútur í miðju fjallinu af því að það veit ekki hvort það eigi að fara upp eða niður,“ segir hann.
„Þetta er óþarfi; það er hægt að koma í veg fyrir svona. Ég held að við séum heppnir að vera ekki búnir að lenda í meira veseni út af þessu máli,“ segir hann.
Að lokum segir hann að það sé ekki síður mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar átti sig á stöðuni og komi fólki í skilning um að það eigi ekki að fara inn á svona hliðarvegi sem séu ekki mokaðir.