Ívar Pálsson, lögmaður ríkisins, segir að fullyrðing talsmanns Landeigendafélagsins á Geysi um að synjun á lögbanni veiti félaginu heimild til að loka svæðinu sé röng. Ríkið hefur skotið málinu til dómstóla.
„Lögbannið þýðir ekkert annað en það, að sýslumaðurinn [á Selfossi] hafnar því að stöðva innheimtuna. Það þýðir hvorki meira né minna,“ segir Ívar í samtali við mbl.is.
Hann bendir á að lögbann sé bráðabirgðagerð og í henni felist enginn efnislegur dómur. „Ef að sýslumaður telur að réttindin séu skýr og ljós á fellst hann á lögbann, ef ekki þá hafnar hann því,“ segir Ívar.
Sýslumaðurinn á Selfossi hafnaði kröfu fjármálaráðherra sl. fimmtudag um að leggja á lögbann við innheimtu gjalds við Geysi. „Hann rökstyður það með þeim hætti að telji að landeigendum sé heimilt að hefja innheimtu gjaldsins til þess að vernda svæðið og svo framvegis,“ segir hann ennfremur.
Ívar segir að Landeigendafélagið, sem sé einkahlutafélag, hafi enga heimild til að innheimta gjald á svæðinu. „Það er einkahlutafélag sem er a rukka inn á svæðið sem hefur engin réttindi á svæðinu - ekki svo við vitum með samningum við neina landeigendur eða neitt,“ segir Ívar.
Gjaldtaka á Geysissvæðinu hófst í morgun, líkt og mbl.is hefur greint frá. Spurður út í framhaldið segir Ívar, að ríkið hafi engar aðrar heimildir heldur en að krefjast lögbanns sem hefur verið hafnað. Því hefur ríkið ákveðið að skjóta málinu til dómstóla varðandi niðurstöðu sýslumanns. Ívar vonast til að málið verði tekið fyrir eftir helgi og síðan mun það hafa sinn gang í dómskerfinu.