Hugarfarsbreyting hægt og sígandi

Fylgst með flotaæfingum. Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO, fremst …
Fylgst með flotaæfingum. Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO, fremst á myndinni. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

„Þegar ég hóf störf sem fastafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu í ágúst síðastliðnum og byrjaði að kynnast kollegum og starfsmönnum bandalagsins, vöktu fjölmargir þeirra athygli mína á því að með komu minni hefði verið sett nýtt met, þar sem aldrei hefðu verið jafn margar konur sendiherrar bandalagsríkjanna hér í Brussel. Mér fannst þetta nokkuð einkennilegt.“

Þannig hefst pistill Önnu Jóhannsdóttur, fastafulltrúa hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO), á bloggvef utanríkisráðuneytisins þar sem hún fjallar um upplifun sína af því að hefja störf á þeim vettvangi á síðasta ári. Þrjár konur séu nú á meðal 28 fastafulltrúum hjá NATO. „Það er í mínum huga í rauninni ekki hlutfall til að hrópa húrra fyrir, en verulega mikil framför frá því sem verið hefur undanfarin ár.“ Hins vegar sé hugarfarsbreyting að eiga sér stað í þeim efnum.

„Það gerist ekki síst með samstarfi innan bandalagsins með líkt þenkjandi ríkjum, sem lyfta málefnum og berjast fyrir þeim,“ segir Anna. Dæmi um slíkt sé áhersla Íslands og fjölmargra samstarfsþjóða á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. „Það er ekki síst dropinn sem holar steininn þegar þessi mál ber á góma og það skiptir máli að taka þau upp alls staðar þar sem Ísland á sæti við borðið og getur haft áhrif, jafnt í NATO sem annarsstaðar.“

Bæði kynin komi að störfum á alþjóðavettvangi

Hægt og sígandi hafi tekist að breyta hugarfarinu og undanfarin fimm ár hafi verið unnið ötullega að því að viðmið og áherslur í þessum efnum væru hluti af starfsemi NATO og verkefnum sem bandalagið kæmi að. Það sem einu sinni hafi verið jaðarmálefni sé nú orðið hluti af stefnu og ályktunum leiðtoga NATO. Konur taki æ ríkari þátt í uppbyggingu stjórnkerfis og friðarumleitana eftir átök enda skipti máli að efla og hvetja konur í ríkjum sem starfað er í eða unnið með á annan hátt.

Í fyrirsögn pistilsins spyr Anna að því hvort konur hafi áhuga á varnarmálum. Spurningunni svarar hún síðan í lok hans. „Til þess að svara spurningunni sem ég byrjaði á hér í upphafi, þá er engin spurning að áhugi er fyrir hendi, en það skiptir máli að virkja hann og efla, nákvæmlega eins og það skiptir máli að bæði kynin komi að starfi á alþjóðavettvangi almennt, njóti almennra mannréttinda og taki þátt í að skapa öryggi og frið.“

Pistill Önnu Jóhannsdóttur í heild

Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO.
Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá NATO. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka