Stíf fundarhöld stóðu fram eftir kvöldi í gær hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum við ríkið.
Viðræður munu halda áfram um helgina en verkfall í framhaldsskólum hefst á mánudag, náist ekki sátt fyrir þann tíma. „Helgin verður að leiða í ljós hvort sátt næst í málið, en hún verður notuð vel til þess að reyna að ná fram kjarasamningi,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara í gærkvöldi, en hún segir það vera vilja beggja fylkinga að koma í veg fyrir að af verkfalli verði.
Hún vildi ekki segja til um hvort til greina komi hjá kennurum að slá af sínum kröfum, en framhaldsskólakennarar fara fram á 17% launaleiðréttingu auk umbóta á fjármálum framhaldsskólanna.