Vilja að samið verði við kennara

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði flokksmenn á fundinum.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði flokksmenn á fundinum.

Fundur flokksstjórnarfólks Samfylkingarinnar samþykkti ályktun þar sem lýst er samstöðu með framhaldsskólakennurum og skorað er á fjármálaráðherra að ganga til samninga við þá og afstýra verkfalli sem að óbreyttu mun hefjast á mánudagsmorgun „með miklu tjóni fyrir framhaldsskólanemendur og samfélagið allt“.

Flokkstjórnarfundinum laukí dag. Á fundinum sagði Árni Páll Árnason, formaður flokksins að Ísland ætti stórkostleg tækifæri. „Við eigum öflugar útflutningsgreinar, sterka samfélagsgerð og okkur tókst að varðveita grundvöll velferðar og félagslegs réttlætis í hafróti efnahagshruns.

Til að nýta tækifærin þarf ríkisstjórn sem opnar útflutningi okkar nýja markaði, býr þeim fyrirtækjum sem borga há laun góð almenn starfsskilyrði og tryggir jafnræði atvinnugreina með gjaldtöku fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Ríkisstjórn sem tryggir öllum frelsi frá ótta um eigin afkomu og færi til að finna kröftum viðnám.

Það er löngu sannað að ríkisstjórnin sem nú situr gerir ekkert af þessu. Þetta er ekki frjálslynd ríkisstjórn. Hún mismunar atvinnugreinum og vinnur gegn atvinnufrelsi. Hún endurnýtir eldgamlar íslenskar sérlausnir, til að tryggja vildarvinum forgang fram yfir aðra. Hún er ráðlaus um afnám hafta. Hún hyglar þeim sem ríkastir eru og leggur auknar álögur á allt millitekju- og lágtekjufólk. Atvinnustefnan: Ríkisrekin áburðarverksmiðja til að blása ungu fólki í brjóst tiltrú á framtíðina.

Við stefnum hraðbyri í vítahring gengislækkana, verðbólgu, vaxtahækkana, kauphækkana og svo gengislækkana, verðbólgu … og þannig koll af kolli. Almenningur er langt frá því að hafa endurheimt kaupmáttinn frá því fyrir hrun, en útgerðin er samt strax byrjuð að heimta gengisfellingu. Við í Samfylkingunni ætlum ekki að halda kjafti og vera sæt: Til þess var barist við hrunið að það gerðist aldrei aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert