Skerðing á raforku Landsvirkjunar til stórnotenda og í heildsölu er farin að valda áhyggjum meðal erlendra fjárfesta. Allt stefnir í slæmt vatnsár hjá Landsvirkjun annað árið í röð og fyrirtækið metur nú hvort grípa þurfi til frekari skerðinga.
Spurð hvað sé til ráða segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tvo kosti í stöðunni. Annars vegar nýir virkjunarkostir og hins vegar styrking flutningskerfis Landsnets. Ragnheiður segist hafa komið inn á þetta við vígslu Búðarhálsvirkjunar á dögunum.
„Þar vísaði ég til þess að Landsvirkjun er sem stendur með fimm aðra virkjunarkosti á Þjórsársvæðinu til skoðunar,“ segir hún í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag og á við Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri Þjórsá, Norðlingaölduveitu og stækkun Búrfellsvirkjunar. Síðan megi benda á aðra virkjunarkosti í nýtingarflokki rammaáætlunarinnar.