Ekki ástæða til að hreyfa við ESB-málinu

Elliði Vigfússon bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vigfússon bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist vera þeirrar skoðunar að það ætti ekki að fara fram nein atkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður um aðild að Evrópusambandinu fyrr en eftir næstu kosningar. Viðræður hafi verið stöðvaðar af síðustu ríkisstjórn og það ætti ekki að hreyfa við því fyrr en fyrir liggur skýr vilji bæði þings og þjóðar um vilja til að ganga í ESB.

Elliði er forystumaður sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Hann var spurður hvort hann væri þeirrar skoðunar að fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um áfrmhald viðræðna við ESB.

„Ég verð var við það að að hinum almenna sjálfstæðismanni finnst eðlilega óþægilegt að flokkurinn sé orðinn ábyrgur fyrir framhaldi að þessum aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið þegar ætíð hefur legið fyrir að flokkurinn er á móti aðild. Í því ljósi séð held ég að best sé að málið verði áfram í þeim óvirka farvegi sem Samfylking og Vinstri græn settu málið í. Mér finnst eins og þjóðin sé búin að gleyma því að það voru Samfylkingin og VG sem settu málið í formalínkrukku, til varanlegrar geymslu ef til vill, eftir að hafa í tvígang fellt tillögu um að leitað yrði til þjóðarinnar. Og ég minnist þess ekki að þá hafi verið fjölmenn mótmæli á Austurvelli. Krafa um að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarfloks beiti sér fyrri atkvæðagreiðslu um ákvörðun VG og Samfylkingar um að stöðva ferilinn er vægast sagt furðuleg. Mín skoðun er sú að það ætti ekki að fara fram nein atkvæðagreiðsla um þetta mál fyrr en eftir næstu kosningar. Málið er stopp og við því ætti ekki að hreyfa fyrr en fyrir liggur skýr vilji bæði þings og þjóðar um vilja til að ganga í ESB. Hér á landi þurfa að verða til „Já“ og „Nei“ hreyfingar en illu heilli kom Samfylkingin málum þannig fyrir að urðu til „Nei“ og „Kíkja í pakkann hreyfingar“. Þannig fyndum við þessu máli farveg utan flokkspólitíkur og það væri vel.“

Sigmundur er hörundsár

Ég geri ráð fyrir að þú hafir frekar viljað sjá Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra en Sigmund Davíð. Hvernig finnst þér Sigmundur Davíð hafa staðið sig í embættinu?

„Það er rétt, ég hefði gjarnan viljað sjá Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra. Hann býr yfir yfirvegun og næmi sem gefur málflutningi hans aukna vigt og fyrir vikið hefur hann orðið leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Hann hefur axlað það hlutverk vel. Mér fannst Sigmundur Davíð standa sig vel í kosningabaráttunni, hann stillti sér upp sem málsvari þjóðarinnar og andstæðingum gekk illa að finna á honum höggstað. Eftir að hann varð forsætisráðherra hefur mér fundist hann gera margt vel en mér finnst hann of hörundsár. Hann virðist vilja fá áfram þá mjúku meðferð sem hann fékk að hluta til í kosningabaráttunni, en slíkt er ekki og á ekki að vera í boði fyrir forsætisráðherra. Ég held að hann eigi eftir að ná betri tökum á embættinu. Hann hefur sýn sem hann er reiðubúinn að fylgja eftir og ef hann nær flokki sínum á bak við sig held ég að honum verði allir vegir færir.

Þessi ríkisstjórn á að geta unnið meira gagn en síðasta ríkisstjórn vegna þess að hún er samstæðari og með sterkari meirihluta. Ég hef trú á ríkisstjórninni en mér finnst hún mega sýna meiri kraft og ganga fastar fram. Þegar hægristjórn tekur við af mestu vinstristjórn seinni tíma þá vill maður sjá skýrt strik í sandinum. Ég hef þá trú að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eigi eftir að finna taktinn betur. Af nógu er að taka. Ríkisfjármál eru forgangsatriði og þar þarf að forgangsraða langt umfram það sem gert hefur verið. Stjórnarflokkarnir þurfa að vinna að tilslökunum í tollamálum, koma á skattalækkunum og móta skýra peningastefnu án þess að utanríkismál í víðum skilningi séu að þvælast þar fyrir. Atvinnulífið er að kalla eftir skýrri peningastefnu og það er von. Þjóðin er líka að kalla eftir því að geta farið út í búð og keypt sér oststykki án þess að greiða fyrir það stórfé. Ég held að þjóðin sé tilbúin að vinna mikið en hún vill líka sjá árangurinn á launaseðilinum frekar en í vexti hins opinbera.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert