Semur lög bæði í starfi og frítíma

Illugi lék frumsamið lag á Íslensku tónlistarverðlaunahátíðinni við kynningarmyndband á …
Illugi lék frumsamið lag á Íslensku tónlistarverðlaunahátíðinni við kynningarmyndband á heiðursverðlaunahöfum hátíðarinnar undanfarin 20 ár

„Ég samdi þetta lag fyrir svolitlu síðan, ég þurfti reyndar að aðlaga það að þessu kvöldi og lengja það aðeins til að það passaði við lengdina á myndbandinu,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, sem á föstudag lék frumsamið lag á flygil undir kynningarmyndbandi á heiðursverðlaunahöfum Íslensku tónlistarverðlaunahátíðarinnar. 

Illugi er píanóleikari og lærði á orgel hjá organista Páfagarðs í nokkra mánuði árið 1997. Í annasömu starfi Illuga getur verið erfitt að finna tíma fyrir tónlistina. 

„Ég reyni þegar ég á tækifæri til að grípa í píanóið en það er alltof sjaldan og ég finn hvernig allt verður svolítið stirðara fyrir vikið.“

Ágætt með starfi og veitir ánægju

Sem ráðherra hefur Illugi það að starfi að semja lög fyrir Alþingi en hann kann líka ágætlega við að semja annars konar lög. 

„Ég er alltaf eitthvað að fást við að semja bara fyrir sjálfan mig, ég segi nú ekki að það sé mikið að vöxtum. En mér finnst gaman að spreyta mig á því og þegar maður vinnur vinnu eins og ég geri þá er gaman að gera eitthvað sem veitir manni smá svigrúm á skapandi sviði. Undanfarið ár hefur það þó verið ósköp lítið.“

Illugi segir það lengi hafa verið svo að margir stjórnmálamenn hafi einhverja tengingu við listalífið. 

„Tengingin er mismikil auðvitað. Svo er reyndar mikilvægt líka varðandi svona píanóspil að maður átti sig á því að hver munurinn er á alvöru tónlistarmönnum sem eru að gera þetta og svo okkur sem höfum þetta sem áhugamál, það er ansi mikil gjá þar á milli. En þetta er ágætt með starfinu og veitir manni sjálfum ánægju,“ segir Illugi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert