„Það hefur ekkert verið ákveðið“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur ekkert verið ákveðið. Það hefur ekkert verið botnað,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í þættinum Mín skoðun, á Stöð 2, þegar hún var spurð um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að efna ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu heldur slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

„Ég held að við höfum vanmetið þann vilja, sem er svo sterkur í samfélaginu í dag og ég fagna, sem er viljinn til að taka þátt, viljinn til að fá aðkomu og viljinn til að fá að segja sína skoðun á stórum málum,“ sagði Hanna Birna um þá andstöðu sem er við þingsályktunartillöguna.

Hanna Birna sagði að ríkisstjórnin væri opin fyrir því að skoða aðkomu almennings að málinu. Hún sagði að fólk ætti að leyfa málinu klárast í þinginu. Stjórnin þyrfti að eiga samtal við stjórnarandstöðuna um þær tillögur sem hún hefði lagt fram um þetta mál. „Við eigum líka að ræða hvernig er farsælast að aðkoma almennings verði að málinu.“

Hanna Birna sagði að menn yrðu hins vegar að skilja að þessi ríkisstjórn væri ekki með það á stefnuskránni að ganga í Evrópusambandið og það væri ekki hægt að ætlast til þess að hún tæki það verkefni að sér.

Hanna Birna var spurð út í yfirlýsingar Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, að tillaga ríkisstjórnarinnar um að slíta viðræðunum fælu í sér ein mestu loforðasvik í Íslandssögunni í ljósi skýrra yfirlýsinga forystumanna Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.

„Ég vil segja við Þorstein: Umræðunni á þingi hefur ekki verið lokað. Bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra hafa ekki útilokað neitt. Ég vil líka segja við fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, að Sjálfstæðisflokkurinn snýst ekki um aðild að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn snýst um frelsi, val einstaklinganna og lítil ríkisafskipti. Þetta er kjarninn í sjálfstæðisstefnunni. Kjarninn í sjálfstæðisstefnunni er ekki aðild að Evrópusambandinu. Stærstu svik formanns Sjálfstæðisflokksins geta aldrei snúið að Evrópusambandinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert