Verkfall framhaldsskólakennara mun hefjast á morgun. Í kvöld var lagt fram tilboð sem samninganefnd Félags framhaldskólakennara hyggst fara yfir.
Ekki fengust ítarlegar upplýsingar í kvöld hvað felst í því tilboði annað en að hækkun launa mun vera hærri en 2,8%. Jafnframt voru lagðar fram kerfisbreytingar á starfi framhaldsskólanna, þ.e. lenging kennslutímans og stytting náms til stúdentsprófs.
Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara, Félags stjórnenda í framhaldsskólum og samninganefnd ríkisins hafa fundað stíft um helgina og í kvöld lá þessi niðurstaða fyrir í húsakynnum ríkissáttasemjara.
Fyrr í kvöld sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í samtali við mbl.is, að hann vonaði að samningar myndu nást.
„Auðvitað vona ég það eins og allir að það takist að klára samningana. Ef það tekst ekki þá auðvitað vonum við öll að það líði ekki langur tími þar til samkomulag næst og ég veit að samninganefndirnar hafa lagt mikið á sig til að ná saman,“ sagði Illugi.
Í tilkynningu sem var birt á vef Kennarasambands Íslands um kl. 22 í kvöld segir, að verkfall framhaldsskólakennara hefjist á miðnætti.
„Fundir stóðu alla helgina en skiluðu ekki árangri. Viðræður halda áfram í kvöld og nýr fundur hefur verið boðaður upp úr hádegi á morgun. Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að það sé auðvitað slæmt að kennarar þurfi enn einu sinni að beita verkfallsvopninu til að ná fram leiðréttingu á kjörum sinum. Í sama streng tekur Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.
Félagsmenn eru beðnir um að fylgjast með heimasíðu Kennarasambandsins en þar verða birtar upplýsingar um gang viðræðna, verkfallsmiðstöðvar, verkfallsvörslu sem og annað sem máli skiptir. Ennfremur mun útgáfustjórn Félags framhaldsskólakennara senda út upplýsingar á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni.