Furðuleg forgangsröðun stjórnvalda

Frá fundi framhaldsskólakennara og ríkisins.
Frá fundi framhaldsskólakennara og ríkisins. mbl.is/Golli

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir samstöðu með kjarabaráttu framhaldsskólakennara. Í ályktun stjórnarinnar segir að ljóst sé að framhaldsskólakennarar hafi dregist aftur úr sambærilegum stéttum í kjörum á undanförnum árum. „Auk þess hefur rekstur skólanna verið mjög aðþrengdur enda töluvert skorið niður í skólunum fyrir hrun og eftir hrun hefur verið hagrætt þar líkt og í öllum geirum hins opinbera.“

Stjórnin „furðar sig á forgangsröðun stjórnvalda“ og þeirri ákvörðun að afsala almenningi tekjum með því að lækka tekjuskatta, lækka sérstakt veiðigjald, falla frá eðlilegum virðisaukaskatti á ferðaþjónustu o.s.frv. sem hefði mátt nýta til að hefja uppbyggingu á innviðum á borð við framhaldsskólana. „Þá má minna á að hagvöxtur á árinu 2013 varð helmingi meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 og því hefðu með réttu átt að skapast tækifæri til uppbyggingar eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð lagði til fyrir kosningar. Ríkisstjórnin hefur þess í stað haldið áfram þaðan sem frá var horfið fyrir hrun með niðurskurði hjá framhaldsskólum í fjárlögum ársins 2014 sem er óskiljanlegt með öllu.

Einhliða yfirlýsingar menntamálaráðherra um að hann hafi ákveðið að skera niður nám í framhaldsskólum án samráðs við fagfélög kennara,  fækka kennurum og hækka laun þeirra sem eftir sitja eru hvorki til marks um skilning á mikilvægi menntunar eða virðingu fyrir kennarastarfinu.

Verkfall mun hafa mikil áhrif á líf hartnær 30 þúsund námsmanna sem búa nú við mikla óvissu. Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur stjórnvöld til að bregðast hratt við og leita allra leiða til að ná fram viðunandi lausn fyrir framhaldsskólakennara og nemendur þeirra, með mannsæmandi kjörum fyrir kennara og samráði um skipulagsbreytingar í skólum sem ekki hafi í för með sér skerðingu á inntaki eða gæðum náms,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert