Hælisleitandi grunaður um tilefnislausar árásir á konur

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að karlmaður frá Erítreu sæti gæsluvarðhaldi vegna gruns um tvær líkamsárásir. Maðurinn kom hingað til lands 23. febrúar síðastliðinn og er þetta í annað skiptið sem krafist er gæsluvarðhalds yfir honum frá þeim tíma. Maðurinn sótti um hæli þegar hann kom hingað til lands.

Fyrri líkamsárásin er sögð hafa verið framin að kvöldi 4. mars utan við hús á Bergþórugötu í Reykjavík. Hafi kona sem ekki þekkir manninn verið á gangi heim til sín þegar hann gaf sig á tal við hana. Að lokum hafi maðurinn stungið upp á því að konan kæmi með honum heim. Þegar hún hafi hafnað því hafi maðurinn ráðist á hana með höggum og spörkum, kýlt hana í andlitið og sparkað í hana liggjandi. Vitni hafi verið að árásinni. Teknar hafi verið skýrslur af brotaþola og vitninu. Lýsing þeirra á árásarmanninum passi við lýsingu mannsins. Þá hafi árásin átt sér stað mjög nærri dvalarstað hans. Þá hafi myndsakbending verið framkvæmd og brotaþoli bent á manninn.

Þá er maðurinn grunaður um sérstaklega hættulega líkamsárás sem framin var aðfaranótt 13. mars á Ingólfsstræti í Reykjavík. Henni er svo lýst í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu: „Samkvæmt framburði brotaþola sem tekinn hafi verið á slysadeild var brotaþoli að koma úr verslun 10/11 í [...] Austurstræti og hafi gengið eftir Lækjargötu þegar karlmaður, útlendingur, svartur á hörund, hafi komið upp að henni og tekið utan um hana og látið eins og hann væri vinur hennar. Hafi brotaþola fundist þetta mjög óþægilegt og stjakað manninum frá sér og forðað sér upp brekkuna meðfram Menntaskólanum í Reykjavík.

Þegar hún hafi verið komin efst í brekkuna hafi hún veitt því athygli að maðurinn var á eftir henni. Hún hafi gengið áfram að verslun Bónus við Hallveigarstíg og áfram suður Ingólfsstræti og maðurinn enn verið á eftir henni. Skyndilega hafi maðurinn verið kominn alveg upp að henni og hafi ráðist án nokkurs fyrirvara á hana og slegið hana með afli með glerflösku ofan á höfuðið. Sagðist hún aðeins hafa vankast við höggið en forðað sér á hlaupum til baka eftir Ingólfsstræti í átt að Bónus við Hallveigarstíg þar sem hún hafi hitt mann sem sat í bifreið og hafi hann aðstoðað hana.“

Maðurinn neitar sök en þrátt fyrir það telur lögregla yfirgnæfandi líkur á að hann hafi verið árásarmaðurinn. „Telji lögreglustjóri brot þau sem hér um ræði vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarlega líkamsárás sem honum er gefin að sök.“

Þá segir að brotin séu þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund manna að hann gangi laus á meðan málin eru til meðferðar.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfuna og úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 10. apríl næstkomandi. Hæstiréttur var hins vegar á öðru máli og segir í dómi réttarins að þrátt fyrir að maðurinn sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brotið sé því skilyrði ekki fullnægt að sterkur grunur leiki á því. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi.

Frétt mbl.is: Hælisleitandi úrskurðaður í farbann

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert