Langt í land hjá Herjólfi

Herjólfur
Herjólfur Styrmir Kári

Fundur í kjaradeilu undirmanna á Herjólfi og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Eimskipa hefst klukkan 11:30 á eftir. Að sögn Jónasar Garðarssonar hjá Sjómannafélagi Íslands er enn langt í land og sátt ekki í augsýn. Hann segir kröfur undirmanna Herjólfs vera samhljóðandi þeim sem sjómenn hafa fengið á almennum vinnumarkaði á árunum 2011-2012. „Við viljum fá sömu hækkun og búið er að semja um á öðrum skipum. Nákvæmlega sömu. Þá er ekki mikið svigrúm til þess að taka á um það hvort hægt sé að mætast á miðri leið,“ sagði Jónas í samtali við mbl.

Í kröfunum felast 16% hækkun á grunnkaupi, hækkun á næturvinnuálagi frá 33% upp í 80% og að fá sjómannaafslátt til baka sem var afnuminn um síðustu áramót. „Kjör þessa fólks rýrnuðu þegar sjómannaafslátturinn var afnuminn. Við höfum samið við ýmsar útgerðir um að þær greiði þetta. Við erum á sömu vegferð hérna,“ segir Jónas.

Í verkfallsaðgerðunum felst að undirmennirnir vinni ekki eftir klukkan fimm á daginn né um helgar. Þá verður ekki unnið á næstkomandi föstudag. Jónas reiknar með að aðgerðirnar verði með sama hætti í vikunni þar á eftir. Spurður hvort til greina komi að fjölga verkfallsdögum segir hann allt koma til greina, þótt ekkert hafi verið ákveðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka