Segjast geta hækkað laun ef námið verður styttra

Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum á fundi um helgina.
Samningamenn framhaldsskólakennara ráða ráðum sínum á fundi um helgina.

Framhaldsskólakennarar fara nú yfir drög að kjarasamningi sem lögð voru  fram á samningafundi kennara og stjórnenda í framhaldsskólum og ríkisins í gærkvöldi. Formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum segir drögin „mjög hrá“, en þau feli m.a. í sér tillögu um launahækkun verði af styttingu náms til stúdentsprófs.

„Þetta eru bara drög, það þarf að hafa það í huga. Þau geta breyst fram og til baka,“ segir Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.  Í gær kom fram í fréttum mbl.is að í drögunum fælust ákvæði um launabreytingar og kerfisbreytingar á vinnutíma kennara. „Við erum ekki tilbúin til að tjá okkur mikið um þetta að sinni,“ segir Ólafur.

Hvernig líst ykkur á drögin? „Málið er komið á ákveðinn stað sem við getum unnið út frá, auðvitað hefði verið æskilegt að fá þetta fyrr, þannig að ekki hefði þurft að koma til verkfalls í morgun. Þetta er a.m.k. hreyfipunktur, það er óhætt að segja það.“

Þetta hefur truflað aðeins

Eitt af því sem drögin fela í sér er stytting náms til stúdentsprófs. Hvers vegna er það hluti af kjaraviðræðum kennara og hvenær kom þessi þáttur inn í kjaraviðræðurnar? „Samkvæmt bókun í kjarasamningum ber að semja um það við Kennarasambandið verði breyting á námstíma. Þetta hefur svosem svifið yfir vötnunum um tíma, en þetta var síðan lagt á borðið í síðustu viku. Það kom ekki fram fyrr en fyrir nokkrum dögum að samninganefnd ríkisins legði á þetta áherslu í þessum tiltekna kjarasamningi,“ segir Ólafur. „Ég get ekki neitað því að þetta hefur truflað aðeins.

Lítið talað um verknámið

Við spyrjum okkur að því hvers vegna þetta er hluti af kjaraviðræðum kennara,“ segir Ólafur. „En hins vegar er í framhaldsskólalögum svigrúm til skólanna um að skipuleggja nám til stúdentsprófs með mismunandi hætti. Sumir skólar eru þegar búnir að stytta nám til stúdentsprófs, aðrir eru á leiðinni að gera það. Okkur finnst svolítið sérstakt í allri þessari umræðu hvað það er lítið talað um verknámið, það er ekki hægt að halda því fyrir utan þessa umræðu því samkvæmt lögum á að vera hægt að taka stúdentspróf af verknámsbrautum.“

Felst í þessu að ef nám til stúdentsprófs verði stytt, þá skapist svigrúm til að greiða kennurum hærri laun? „Já, það er ein af röksemdunum.“ Hafa verið nefndar einhverjar tölur í þessu sambandi, um hversu mikið væri hægt að hækka laun kennara ef af þessari styttingu yrði? „Það er eitt af því sem var lagt fram á fundinum í gær, en ég get ekki greint frá því núna,“ segir Ólafur.

Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 14 í dag.

Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum.
Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum. www.ki.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert