Sjálfstæðismenn vilja vernda sjónás

Á myndinni til vinstri sést útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg …
Á myndinni til vinstri sést útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg að Sólfarinu eins og það er í dag. Hægra megin sést hvernig útsýnið, eða sjónlínan, yrði þegar framkvæmdum við háhýsið yrði lokið. mbl.is

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði Reykjavíkur vilja að óskað verði eftir viðræðum við lóðarhafa í Skuggahverfi við Skúlagötu um að vernda „mikilvægan sjónás frá Skólavörðuholti norður Frakkastíg og þar með útsýni út á Kollafjörð, upp á Kjalarnes og til Esju“.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu nýverið hafa framkvæmdir hafist á ný við byggingu háhýsis í Skuggahverfinu við Skúlagötu. Að verki loknu mun byggingin skyggja á útsýnið frá Skólavörðuholtinu og niður Frakkastíg að sjónum.

Hjálmar Sveinsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sagði þá að turnabyggðin við Skúlagötuna sé ein verstu skipulagsmistök síðustu áratuga í borginni. „Mér finnst þetta alveg hörmulegt því að þetta er einstaka fallegur sjónás niður Frakkastíginn og listaverkin tvö, Sólfar [við Sæbraut] og Leifur heppni á Skólavörðuholti, kallast fallega á.“

Breytingar verði gerðar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði lögðu fyrir helgi fram tillögu til að reyna að vernda þennan sjónás. Í tillögunni segir: „Samkvæmt gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt var í borgarráði 9. mars 2006, er heimilt að reisa 19 hæða háhýsi á lóðinni. Reynt verði að ná samkomulagi við lóðarhafa um breytingar á háhýsi því sem fyrirhugað er að rísi á lóðinni, annaðhvort með tilfærslu þess innan reitsins eða samkomulagi um verulega lækkun þess.“

Málinu var frestað og verður að öllum líkindum tekið fyrir á næsta fundi borgarráðs.

Frétt mbl.is: Nýbygging skyggir á sjónlínu

Frétt mbl.is: Verstu skipulagsmistök í áratugi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert