Ekki stefnt að sumarþingi

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki hefur verið farið fram á það að sumarþing verði að loknum sveitarstjórnarkosningum í lok maí. Þetta kom fram í máli Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, við upphaf þingfundar í dag. Ekki stæði annað til en að halda sig við dagskrá þingsins eins og hún hefði verið lögð upp síðastliðið haust.

Þar brást hann við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, sem kvaddi sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta og vísaði í ummæli Sigrúnar Magnúsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, í Fréttablaðinu í dag þess efnis að sumarþing kæmi til greina. Sigrún kvaddi sér hljóðs og sagðist telja mögulegt að standa við dagskrá Alþingis. Hins vegar hefði verið gengið á sig í viðtalinu og hún svarað því til að slíkt gæti gerst líkt og áður.

Fleiri stjórnarandstæðingar tóku til máls og lýstu ánægju sinni með að ekki væru uppi áform um sumarþing. Kvörtuðu þeir hins vegar yfir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra væri ekki í þingsalnum til þess að svara fyrirspurnum. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, hóf þá umræðu og sagðist vera orðinn þreyttur á að reyna að eiga orðastað við ráðherrann.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, benti á að fimm ráðherrar væru í þingsalnum til þess að svara fyrirspurnum þingmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert