„Fólk er viðbúið stríði“

Blómsveigar liggja víða um Kænugarð til minningar um þá sem …
Blómsveigar liggja víða um Kænugarð til minningar um þá sem látið hafa lífið í mótmælunum. AFP

Ljósmyndarinn Roman Gerasymenko, sem búsettur er á Íslandi, er nú staddur í Kænugarði. Í samtali við mbl.is sagði hann biðstöðu einkenna andrúmsloftið. Fólki hefur fækkað á götunum en blómsveigar liggja víða um torg til minningar um hina látnu.

Gerasymenko er frá Úkraínu en fjölskylda hans býr í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá Kænugarði. Hann segir hana ekki hafa tekið þátt í mótmælunum né hafi sínir nánustu vinir hlotið nokkur meiðsli.

Hann segir að fólki finnist almennt sem það hafi unnið sigur eftir að Janúkóvitsj var steypt af stóli, en óþægileg óvissa ríki þó um næstu skref. „Ég myndi ekki segja að menn væru glaðir, en það ríkir þó almenn ánægja þar sem fólki finnst almennt sem það hafi náð því fram sem það stóð fyrir. Hins vegar virðist enginn vita hvað gerist næst.“

„Úkraína á að standa sameinuð “

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, samþykkti í dag áætlun um að innlima Krímskaga inn í Rússland. Þetta var í kjölfar þess að þingið á Krímskaga lýsti formlega yfir sjálfstæði frá Úkraínu, með ósk um að sameinast Rússlandi, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram á Krímskaga á sunnudag. Yfirvöld á Krímskaga fullyrða að 97% kjósenda hafi greitt atkvæði með því að slíta tengslin við Úkraínu.

Gerasymenko segir það vera almennu skoðunina meðal fólks í kringum Kænugarð að Úkraína skuli standa sameinuð. Hann segir augljóst að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögleg og er þess fullviss að ef kosið yrði í landinu öllu yrði niðurstaðan sú að Úkraína ætti að standa óskipt. Hann segir að eina fólkið sem hafi kosið í atkvæðagreiðslunni væru stuðningsmenn Rússlands, hinir hefðu ekki viðurkennt atkvæðagreiðsluna og setið heima.

 „Réðust að lögreglunni“

Tjaldbúðir mótmælenda og vegatálmar eru enn á götum úti en umferð er þó farin að ganga, að minnsta kosti fyrir gangandi vegfarendur og pláss er fyrir einstaka bíla á götunum.

Hann segist ekki hafa upplifað sig í neinni hættu. „Fólk er vinalegt og reiðubúið að útskýra það sem gerst hefur. Ein kona sagði mér frá átökunum þegar mótmælendur voru skotnir til bana af lögreglunni við Októbertorg. Hún sagði það hafa gerst með þeim hætti að um tuttugu ungir menn hefðu gert atlögu að lögreglunni og verið skotnir í kjölfarið. Aðrir reyndu þá að koma þeim til bjargar en voru þá einnig skotnir,“ sagði Gerasymenko.

Fólk er viðbúið stríði

Hann segir orðróm vera uppi um að úkraínsk stjórnvöld séu að færa skriðdreka frá norður- og austurhluta Úkraínu að landamærunum til þess að standa þar vörð.

Spurður hvort menn virðist vera að búa sig undir stríð segir hann fólk vera tilbúið ef til þess kæmi. „Fólk er ennþá í sinni daglegu rútínu, en það er ekki að gera neinar áætlanir fyrir framtíðina, allt slíkt er á bið. Ég myndi ekki segja að fólk væri að undirbúa sig fyrir stríð, heldur er það frekar viðbúið. Fólk gengur ekki um með byssur, en óvinurinn er það sem sameinar þjóðina og þjóðin mun að öllum líkum standa sameinuð ef ógn steðjar að,“ segir hann.

Gerasymenko segir að fólki finnist sem því hafi unnið sigur, …
Gerasymenko segir að fólki finnist sem því hafi unnið sigur, en að óvissa ríki um næstu skref. AFP
Gerasymenko segir flesta styðja sameinaða Úkraínu.
Gerasymenko segir flesta styðja sameinaða Úkraínu. JOHN THYS
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert