Samninganefndir ríkisins og Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum settust að nýju að samningaborðinu hjá ríkissáttasemjara klukkan 10 í morgun. Samningafundi var slitið um klukkan sjö í gærkvöldi.
„Það er gífurlega mikilvægt af okkar hálfu að reynt verði að finna flöt á málunum svo hægt verði að ganga til samninga. Hvort það gerist eða ekki, það verða næstu dagar að leiða í ljós,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, í samtali við mbl.is fyrir fundinn í morgun.
Líkt og áður hefur komið fram fara kennarar fram á 17% launahækkun. Þar til á sunnudag hafði tilboð um 2,8% hækkun legið fyrir, líkt og á almennum vinnumarkaði, en á tíunda tímanum sl. sunnudagskvöld lagði samninganefnd ríkisins fram drög að samningum.
„Nú eru þó hugmyndir sem hafa aðrar tölur en 2,8% en við erum búin að tjá ríkinu að hugmyndirnar séu óaðgengilegar af okkar hálfu. Það þarf vissulega að ræða aðlögun kjarasamninga að breytingum á framhaldsskólalögunum, þ.e. að lengja skólaárið líkt og lögin kveða á um, fella niður skilin milli kennslutíma og prófatíma og finna útfærslu á framhaldsskólaeiningum. Samningsaðilar hafa ýtt þessum verkefnum á undan sér í langan tíma, nú er eitt ár í að lögin taki gildi og því ekki seinna vænna að fara að skoða þetta,“ segir Aðalheiður.
„Síðan eru það styttingarhugmyndirnar sem nýlega komu inn á borðið. Okkur finnst þetta mjög undarlegt. Þegar þetta birtist á samningaborðinu urðu samningaviðræðurnar erfiðari en ella. Ég er ekki bjartsýn á að þetta leysist á stundinni,“ segir Aðalheiður, aðspurð hvort hún telji að verkfallinu ljúki á næstunni.
Aðalheiður segir að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi tjáð sig um hugmyndirnar um styttingu náms í framhaldsskólum. „Það er mikilvægt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum. Við höfðum hitt hann áður en hugmyndir um styttingu voru settar á borðið og þá talaði hann um að hann ætti eftir að taka ákvarðanir, þær væru í framtíðinni. Nokkrum dögum síðar dúkkar þetta upp á samningaborðinu. Hvers vegna,“ spyr Aðalheiður.
„Hvernig getur hann séð fyrir sér að hægt sé að ganga frá svona ákvörðun við samningaborðið. Maður verður að útskýra af hverju þetta er komið inn á borð núna, hvað á hann við með styttingu?“
Frétt mbl.is: Samningum settar þröngar skorður.