Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti í dag ályktun þar sem skorað er á Alþingi að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
„Í samræmi við gefin fyrirheit verði dregin til baka tillaga um að viðræðum verði slitið og ákvörðun um framhald þeirra sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því mun ríkisstjórnin leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið,“ segir í ályktuninni.
Tíu borgarfulltrúar, þ.e. fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og VG, samþykktu ályktunina, en sjálfstæðismenn sátu hjá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fögnuðu þeim vilja sem fram hefur komið að ná sem breiðastri sátt um næsta skref í aðildarviðræðunum. Með því getur Alþingi leitast við að vinna gegn þeirri tortryggni, sem einkennt hefur umræðuna um málið frá því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG hóf aðildarviðræður á árinu 2009 án þess að vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í tillögu þeirra.
Þar segir einnig að ítrekuð sé sú stefna borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins að vinna að niðurstöðum allra mála í góðri sátt við borgarbúa og að vísa ákvörðunum í mikilvægum málum til þeirra. Er Alþingi hvatt til að kanna allar leiðir sem færar eru til að vinna í víðtæku samráði.
Tillagan var felld með tíu atkvæðum gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.