Embætti ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu stóðu sameiginlega að framkvæmd þolendakönnunar árið 2013 þar sem spurt var um viðhorf almennings til lögreglunnar og upplifun þeirra af afbrotum árið 2012.
Niðurstöðurnar sýndu að flestum þátttakenda fannst lögreglan hafa skilað góðu starfi árið 2012 og var aukning í þeim hópi frá síðustu könnun. Af þeim sem höfðu nýtt sér þjónustu lögreglu voru um 85% ánægð og er það einnig aukning frá síðustu könnun sem náði yfir árið 2010.
Tæplega helmingur þátttakenda eða 44% hafði haft samband við lögregluna með einhverjum hætti og fannst meirihluta þátttakenda (78%) lögreglan vera aðgengileg. Það er hærra hlutfall en í síðustu könnun. Helstu ástæður sem þátttakendur gáfu fyrir því að þeim þætti lögreglan ekki aðgengileg voru þær að ekki væri lögreglustöð í byggðarlaginu, hún væri ekki opin eða enginn væri á vakt.
Þegar kom að upplifun almennings á afbrotum, þá stóð nánast í stað á milli ára hlutfall þeirra sem fannst þeir öruggir í sínu eigin hverfi eða um 91%. Greinileg breyting var á því hvort fólki fannst það mjög öruggt eða frekar öruggt, um 7% færri fannst það mjög öruggt en um 7% fleiri fannst það frekar öruggt.
Flestir töldu umferðarlagabrot helsta vandamálið í sínu hverfi, þar á eftir komu fíkniefnabrot og svo eignaspjöll. Þegar spurt var hvaða afbrotum fólk óttaðist helst að verða fyrir óttaðist stærstur hluti þátttakenda að verða fyrir innbroti (38%) og ofbeldisbrotum (18%) en þó lækkaði hlutfall þeirra sem hafði áhyggjur af þessum brotum milli ára. Hærra hlutfall þátttakenda hafði áhyggjur af því að verða fyrir þjófnaði en í síðustu könnun.
Áhyggjur af afbrotum eru sérstaklega áhugaverður þáttur þegar kemur að upplifun almennings, þar sem hlutfall þeirra sem hafa aldrei áhyggjur af afbrotum hefur farið frá því að vera um 70% árið 2007 niður í að vera aðeins 41% árið 2012. 76% þátttakenda töldu afbrot hafa að einhverju leyti áhrif á daglegt líf sitt og þar af rúmlega 5% mikil áhrif.
Þegar reynsla af afbrotum var skoðuð kom í ljós að flestir höfðu orðið fyirr eignaspjöllum eða um 20% og af þeim höfðu um 24% tilkynnt það brot. Flestir tilkynntu ef þeir höfðu orðið fyrir innbroti eða um 48%.
Þolendakönnunina í heild sinni má sjá hér.