Fengið boð um nýra frá 46 manns

Kristján Gunnar Kristjánsson í nýrnavélinni á Landspítalanum.
Kristján Gunnar Kristjánsson í nýrnavélinni á Landspítalanum. mbl.is

„Ég held að það séu 46 manns sem hafa boðist til að gefa mér nýra. Ég þekki flest af þessu fólki ekki neitt. Það er einn og einn sem ég kannast við. Síðan hafði ein frænka mín samband. En það skýrist kannski eitthvað af því að ég hef sagt sárafáum frá þessum veikindum mínum,“ segir Kristján Gunnar Kristjánsson en hann ákvað á dögunum að nota samfélagsvefinn Facebook til þess að auglýsa eftir einhverjum sem væri reiðubúinn að gerast líffæragjafi og gefa honum nýra. Viðbrögðin létu ekki á sér standa.

Kristján greindist með IGA nýrnamein fyrir tíu árum síðan og hefur síðast tekist á við það. Veikindin hafa smám saman versnað eftir því sem nýru hans hafa skemmst meira og í dag er staðan þannig að hann þarf að fara í nýrnavél þrisvar sinnum í viku til þess að halda lífi. „Það er auðvitað mjög erfitt að vera svona bundin af þessu og geta aldrei farið út fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið þar sem maður þarf að geta komist reglulega í vélina. Maður verður auðvitað þreyttur á þessu. En ég varð hins vegar mjög glaður þegar ég komst í þessa vél.“

Talsvert ákvörðun að opinbera veikindin

Kristján segist þannig ekki hafa gert sér almennilega grein fyrir því hversu veikur hann var orðinn fyrr en hann komst fyrst í nýrnavélina. Fram að því hafi hann smám saman orðið slappari án þess að átta sig á því. „En markmiðið er auðvitað að fá nýtt nýra en síðan kemur bara í ljós hversu langan tíma það tekur. Þetta er auðvitað ákveðin ákvörðun að segja svona opinberlega frá veikindunum og biðja um nýra. Ég hef alltaf lagt áherslu á að vera jákvæður og láta þetta ekki buga mig.“

Hann hafi hins vegar ákveðið að láta reyna á Facebook í þessum efnum eins og fleiri hafi gert. „Ég vissi af einum öðrum sem auglýsti á Facebook og fékk nýra frá fyrrverandi vinnufélaga sínum. Fram að þessu hafði ég aðeins sagt einum og einum frá þessum veikindum mínum. Það fólst ákveðið frelsi í því. En ég bjóst ekkert við að þetta færi svona langt. Í mesta lagi að þetta færi á milli einhverra félaga og svo myndi kannski einhver svara kallinu.“

Mikilvægt að auka umræðuna um nýrnagjöf

Kristján tekur undir það aðspurður að þetta bendi til þess að það sé mikill áhugi á líffæragjöf í samfélaginu. Hins vegar þurfi vafalaust að auka umræðuna um slíkt og færa hana nær fólki. Gera upplýsingar um líffæragjöf sem aðgengilegastar svo hægt sé að kynna sér málið með sem einföldustum hætti. Jarðvegurinn virðist fyrir hendi. „Það er greinilega fullt af fólki sem er reiðubúið að leggja þetta á sig. En það eru líklega mjög fáir sem vita eitthvað af ráði um þetta.“

Hann segir að til sé upplýsingasíða um nýrnaígræðslur á vefsíðu Landspítalans sem opnuð hafi verið fyrir skömmu þar sem nálgast megi allar upplýsingar um málið. Bæði fyrir nýrnaþega og þá sem vilja gefa nýra. Sem og alla sem vilja kynna sér málið betur. „Ég held að í gegnum síðuna sé hægt að hafa samband við umsjónarfólk síðunnar og bjóðast til þess að gefa nýra. En það þarf að vera einhver umgjörð utan um þetta og regluverk. Einhver gagnagrunnur sem fólk getur skráð sig í.“

Framhaldið skýrist væntanlega eftir helgi

Spurður um næstu skref segir Kristján að hann þurfi að fara yfir málið með nýrnasérfræðingnum sínum sem sé eins og er í fríi. Væntanlega skýrist málin eftir helgina. Að mörgu sé að huga í því sambandi. Fara þurfi yfir það hvort mögulegir nýrnagjafar séu heppilegir og þeir sem komi til greina þurfi eðlilegt svigrúm án alls þrýstings til þess að kynna sér til hlítar hvernig það gangi fyrir sig að gefa nýra og hvað felist í því. Þá þurfi að fara í öllu að því regluverki sem gildir um slíkt.

„Það er þannig mikilvægt, og ég passa mig á því, að það séu ekki mikil samskipti á milli mín og mögulegs nýrnagjafa á meðan fólk er bara að hugsa málið. Þannig að það sé enginn þrýstingur. Síðan kemur þetta bara í ljós. En hins vegar held ég að öll umræða um þetta sé af hinu jákvæða og ég vona að sú ákvörðun mín að segja frá mínum veikindum hafi átt þátt í að auka hana.“

Nýrnavélin.
Nýrnavélin. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert