„Það virðist bara vera regla að forsætisráðherra svarar ekki beiðnum þingmanna um sérstaka umræðu. Sum af þessum málum ræddi hins vegar hæstvirtur forsætisráðherra mikið í kosningabaráttunni en nú virðist sem samtal við þjóð og þing sé óþarft.“
Þetta sagði Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins og bendi þar spjótum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Minnti hún á að hann væri ekki aðeins forsætisráðherra heldur einnig þingmaður með þeim skyldum sem því fylgdi. Málefnin sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu viljað ræða um væru ekki léttvæg en þar á meðal væri afnám gjaldeyrishafta, samningar við erlenda kröfuhafa, fullveldismál og styrkir til húsaverndunar sem skiptu hundruðum milljóna.
„Ég óskaði af þessu tilefni eftir því að tekið yrði saman stutt yfirlit yfir þátttöku tveggja síðustu forsætisráðherra miðað við sambærilegan starfstíma. Þar kemur í ljós að hæstvirtur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur svarað 46 óundirbúnum fyrirspurnum og tekið þátt í einni sérstakri umræðu eins og hér hefur komið fram. Á sambærilegum starfstíma svaraði þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, 54 óundirbúnum fyrirspurnum og tók þátt í fjórum umræðum utan dagskrár. Þar á undan svaraði þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, 28 óundirbúnum fyrirspurnum og tók þátt í níu umræðum utan dagskrár,“ sagði Bjarkey.
Sagði hún augljóst af tölunum að formaður Framsóknarflokksins væri töluverður „eftirbátur forvera sinna“ í sérstökum umræðum sem allir flokkar kæmu að. Vakti hún ennfremur máls á því að Sigmundur Davíð yrði samkvæmt dagskrá viðstaddur umræðu á Alþingi á morgun og furðaði sig á því hvers vegna ekki væri af því tilefni orðið við einhverjum af þeim umræðubeiðnum stjórnarandstöðunnar sem lægju fyrir. Spurði hún hvort Einar K. Guðfinnsson, forseti þingsins, væri sáttur við að framgöngu forsætisráðherra. „Er slíkt boðlegt gagnvart þingmönnum þegar þeir koma fram með fullgildar beiðnir og óska eftir að eiga orðastað við leiðtoga ríkisstjórnarinnar um brýn mál?“
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sté í pontu og lýsti ánægju sinni með áhuga stjórnarandstöðuþingmanna á formanni flokks síns. „Alveg hrífst ég af hvað stjórnarandstaðan er hrifin af formanni mínum og ég er ekki hissa á því. Því það er náttúrulega maður sem að allir vilja hafa með sér því því hann er lausnamiðaður og mikill hugsuður og það er kannski svolítið annað en margir hér í þessum þingsal sem nota heldur tímann í eilífst nöldur heldur en uppbyggilegt starf.“