Matvælastofnun segir að ný lög um velferð dýra taki af öll tvímæli um það að dýralæknum einum sé heimilt að gelda dýr. Það gildi einu um hvaða dýrategund er að ræða.
Stofnunin segir ennfremur, að nýju lögin taki einnig af öll tvímæli um að við sársaukafullar aðgerðir skuli ávallt deyfa eða svæfa dýr. Aðeins sé gefin ein undantekning frá þeirri reglu en það sé að eyrnamarka megi lömb og kiðlinga innan við viku gamla án deyfingar. Ekki svo að skilja að lömb og kiðlingar finni minna til heldur sé þessi undanþága sett af praktískum ástæðum.
Þá kemur fram, að nýju lögin séu skýrari en eldri lög og eigi það ekki síst við um ákvæði sem fjalli um viðbrögð við brotum á lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim.
„Matvælastofnun eru færð ýmis úrræði til að krefja dýraeigendur um úrbætur til að stuðla að góðri meðferð á dýrum. Matvælastofnun vinnur nú að átaki eftirlits í sláturhúsum þannig að karldýr verða sérstaklega skoðuð m.t.t. til geldinga. Sé karldýr gelt mun stofnunin kalla eftir staðfestingu hjá eiganda um að dýrið hafi verið gelt af dýralækni. Ef eiganda tekst ekki að færa sönnur á að dýralæknir hafi gelt dýrið mun stofnunin beita þeim úrræðum sem hún hefur lögum samkvæmt, s.s. gera kröfur um úrbætur og auka eftirlit á viðkomandi búi,“ segir í tilkynningu.
„Stofnuninni eru einnig færð tæki til að refsa fyrir að brjóta lögin, þ.e. stofnunin getur lagt stjórnvaldssektir á dýraeigendur. Sektir geta numið frá kr. 10.000,- upp í kr. 1.000.000,-. Slíkt vald er vandmeðfarið og mun stofnunin gæta hófs í anda meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og beita vægari úrræðum fyrst um sinn meðan bændur eru upplýstir um breytt verklag. Ekki verður þó við það unað lengi að dýr séu gelt af leikmönnum án deyfingar, refsingum mun um síðir verða beitt,“ segir einnig í tilkynningunni.