Á annað hundrað fulltrúa fyrirtækja í verslunar- og veitingarekstri, þar á meðal á annan tug erlendra fyrirtækja, mættu á fund í Hörpu í gær þar sem Isavia kynnti forval vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs á Keflavíkurflugvelli.
Samningar rekstraraðila í brottfararsal flugstöðvarinnar rennur út í lok þessa árs en samhliða forvalinu á að ráðast í breytingar á salnum. Áætlað er að þeim breytingum ljúki vorið 2015.
Að sögn Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, eru þeir erlendu aðilar sem skoða rekstur í flustöðinni stórir í sérverslunar- og veitingarekstri. „Það er mikill áhugi erlendis frá, sérstaklega vegna þess að það eru fáir flugvellir með svona mikla fjölgun farþega eins og Keflavíkurflugvöllur. Ísland er inn og menn vilja bæta því við í safnið,“ segir Hlynur í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.